146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér er mikil umræða í tilefni af frétt um að hugsanlega standi til að sameina tvo skóla. Ég tek það fram að ekki er búið að sameina neina skóla. Ég skil það vel að við viljum kalla fram umræðuna. Ég er tilbúinn til að taka þátt í þeirri umræðu. Ég tel það ekki vera neinar nýjar fréttir að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn til að taka þátt í umræðu eða vinni þannig í stjórnmálum sínum að vel sé farið með skattfé almennings og það henti sem best fyrir nemendur, þær leiðir farnar sem koma best út, bæði fyrir skattgreiðendur og notendur þeirrar þjónustu sem um ræðir. Ef það er eitthvað sem er uppi í þessu máli þegar við tökum þá umræðu eru það engar nýjar fréttir. Við munum standa við það alla leið og þurfum ekki að vera neitt hissa á því þótt farnar séu hagkvæmar og góðar leiðir. (Gripið fram í.)