146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

fjárveitingar til sjúkrahúsþjónustu.

[11:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig er farið að gruna að hæstv. fjármálaráðherra sé súrrealisti í dulargervi stjórnmálamanns því þetta svar minnti mig dálítið á leikritið Beðið eftir Godot. Það er spurt mjög skýrrar spurningar: Hvað kallast það þegar stjórnvöld setja fram ákveðin viðmið og kröfur um að verkefnum eigi að fjölga en fjármagnið stendur ekki undir þeim verkefnum? Er það svo að hæstv. ráðherra telji staðhæfingar spítalans rangar þegar spítalinn bendir á þetta, eins og haft er eftir honum í fjölmiðlum? Telur hæstv. ráðherra það eðlilegt að settar séu fram auknar kröfur um sjúkrahúsþjónustu en fjármagnið fylgi ekki þeim kröfum? Um það snýst málið. Og heilbrigð fækkun sjúklinga, jú, það er auðvitað gott. Við hæstv. ráðherra erum algerlega sammála um að það er margt hægt að gera á sviði lýðheilsumála til þess að minni sjúkrahúsþjónustu sé þörf. En við erum samt með staðreyndirnar (Forseti hringir.) sem tala sínu máli. Öldrun þjóðarinnar, fjölgun ferðamanna og sívaxandi kröfur um tæknilegri sjúkrahúsþjónustu. Hvernig á að standa undir því?