146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

málefni Hugarafls.

[11:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ráðuneyti félags- og jafnréttismála hefur margt á sinni könnu og hefur með sanni umfangsmikil verkefni er heyra undir ráðuneytið. Oft og tíðum er erfitt fyrir leikmenn að átta sig á því hvað heyrir undir ólík ráðuneyti, sér í lagi ráðuneytin tvö sem deila húsi og fjalla um málefni hópa sem þurfa hvað mesta á því að halda að lög og reglur taki tillit til oft flókinna aðstæðna í nútímasamfélagi.

Samkvæmt bréfi Hugarafls til hæstv. félagsmálaráðherra koma eftirfarandi upplýsingar fram sem benda til skorts á samráði og yfirsýn, með leyfi forseta:

„Þann 4. apríl komu félagar í Hugarafli og mótmæltu við velferðarráðuneytið í kjölfar gífurlegs niðurskurðar til samtakanna árið 2017. Þar var óskað eftir samtali við báða ráðherra og var því lofað. Fljótlega fengum við samtal við heilbrigðisráðherra og okkur tjáð að félagsmálaráðherra myndi einnig vera á þeim fundi. Ekki sást til hans eða aðstoðarmanna þegar á fundinn var komið. Við áttum góðan fund með Óttari Proppé, sem var mestmegnis fræðsla frá okkur í Hugarafli um starfsemi, en engin ákvörðun var tekin um um framtíð Hugarafls. Í lok fundar var því lofað að samtalinu yrði haldið áfram. Við höfum ítrekað ýtt eftir næstu skrefum en höfum engin viðbrögð fengið frá heilbrigðisráðherra. Þegar ýtt var á fund með félagsmálaráðherra barst mjög stutt svar án rökstuðnings þess efnis að okkar mál væru alfarið á sviði heilbrigðishluta ráðuneytisins. Við furðum á því hvernig félagsmálaráðherra getur útilokað okkur í fjárveitingu á sama tíma og verið er að styrkja afleggjara frá Hugarafli, sem sagt Grófina og Batasetur Suðurlands, og sömuleiðis önnur félagasamtök sem ekki sinna eins víðtækri starfsemi og Hugarafl. Við krefjumst þess að félagsmálaráðherra endurskoði afstöðu sína.“

Ég vil því spyrja hvernig standi á því að hæstv. ráðherra verði ekki við óskum Hugarafls um fund. Stendur til að gera úrbætur á því á allra næstu dögum?