146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

málefni Hugarafls.

[11:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir skýr svör því að það er akkúrat það sem vantar, það vantar skýrleika. Margir þeir sem geta nýtt sér þjónustu Hugarafls þurfa líka á þjónustu hæstv. ráðherra eða ráðuneytis hans að halda. En ég tel mjög mikilvægt, eins og kom fram í áskorunum til hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherra heilbrigðismála, að það komi skýrt fram hvort til standi að gera það mögulegt að halda áfram starfsemi Hugarafls. Ég tel það líka mjög brýnt að það sé gott samstarf og samráð þannig að félagasamtökum eins og Hugarafli, sem skipta miklu máli og hafa gert ótrúlega mikilvæga hluti í samfélagi okkar, sé ekki haldið á mikilli óvissu og það sé strax skýrt hvernig þetta eigi að vera til framtíðar. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra hitti Hugarafl (Forseti hringir.) til þess að sýna því fólki þá virðingu sem því ber.