146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

nefnd um endurskoðun búvörusamninga.

[11:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt, við deilum ekki sömu skoðunum. En við erum ekki að taka hér umræðu um stefnumótun í landbúnaði. Ég var tala um vinnubrögð, hæstv. ráðherra. Ég var að tala um það samráðsferli sem þingið samþykkti og sett var á laggirnar og af hverju hæstv. ráðherra gengur um og rýfur það daginn út og daginn inn með því að skipta um fólk. Jú, það er kannski rétt, það kemur nýr ráðherra sem hefur aðra sýn. En með því að taka út úr ferlinu ákveðna þætti er augljóslega verið rjúfa sátt um að skoða eigi hlutina í heildarsamhengi. Ef ég skildi ráðherra rétt neitaði ráðherrann að fulltrúar ráðherra færu í þessa ferð vegna þess að hún væri skipulögð á vegum samvinnufélags bænda. En ef ég skildi ráðherrann líka rétt vildi ráðherrann gjarnan, og það væri eðlilegt, vanda til verka og undirbúa þar af leiðandi vinnuna. Þá hlýtur ráðherrann að senda fulltrúa sína til Noregs þar sem fyrirmyndin er og tala við sama fólk á öðrum fundum.