146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

nefnd um endurskoðun búvörusamninga.

[11:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Já, það er alveg hárrétt. Við höfum margt að læra af Norðmönnum en ég held líka að Norðmenn geti að mörgu leyti litið til okkar, bæði hvað varðar landbúnað og uppbyggingu, ekki síst í sjávarútvegi.

Talandi um vinnubrögð: Já, það lá alveg ljóst fyrir af minni hálfu og ég hef verið á fundum með bændaforystunni aftur og aftur og alltaf sagt þeim skýrt og skorinort að ég muni fylgja eftir því sem er í stjórnarsáttmálanum. Ég veit að í stjórnarsáttmálanum eru ákvæði sem m.a. falla Framsóknarflokknum ekkert endilega vel, þ.e. að taka út undanþágu sem er í búvörusamningum varðandi samkeppnismál. Í það mál hef ég ætlað að fara. Það hefur alltaf legið fyrir. Vinnubrögðin eru þannig, í anda opinnar, góðrar og gagnsærrar stjórnsýslu, að ég setti frumvarp á vef ráðuneytisins til þess að gefa m.a. okkar ágætu mjólkurframleiðendum og mjólkurbændum tækifæri til að koma með sínar athugasemdir. Er málið komið inn í þingið? Nei, því að við erum að fara yfir athugasemdir þeirra sem hafa sett þær fram, bæði neikvæðar sem jákvæðar. Það liggur ljóst fyrir af minni hálfu að við munum fara mjög gaumgæfilega yfir athugasemdirnar en ég stefni að því að koma með málið hingað til þings í haust og þá fá allir þingmenn tækifæri til að tjá sig um það (Forseti hringir.) hvort undanþága eigi að vera áfram í búvörulögum um samkeppnisumhverfi í mjólkuriðnaði. Ég er því ekki sammála. (Forseti hringir.) En við þurfum að vanda okkur. Þess vegna erum við að taka okkur tíma til að fara yfir allt ferlið.