146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

ójöfnuður í samfélaginu.

[11:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég verð að játa að þær tölur sem hann kynnir hér hef ég ekki séð. Hins vegar þekki ég mætavel að tölur Hagstofunnar hafa sýnt að ójöfnuður í launum hér á landi er með minnsta móti í Evrópu. Það er vissulega ástæða til að hugsa um hvað sé eðlilegur ójöfnuður. Sumir halda því fram að það eigi að vera fullkominn jöfnuður. Ég er ekki í þeim hópi. Það kann að vera að hv. þingmaður sé það. Ég tel að menn eigi að njóta þess að þeir séu með framtak, t.d. til að útvega sér meiri menntun. Ég held að það sé ein meinsemdin t.d. í launakerfum hér á landi, og hefur verið kvartað undan af háskólamenntuðum mönnum, að ekki sé tekið nægilega mikið tillit til menntunar. Ég get t.d. nefnt þar hjúkrunarfræðinga, kennara, stéttir sem eru með mjög langa menntun að baki en njóta þess ekki í launum að eigin mati. Ég held að margir geti tekið undir það mat.

Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður meinar þegar hann segir að ég hafi flatt út skattkerfið. Ég veit ekki til þess að sérstakar tillögur hafi komið frá mér um breytingar á skattkerfinu, nema breytingar á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu. Ef ég man rétt studdi Samfylkingin þær breytingar. Og ég hef komið með hugmyndir um ákveðna græna skatta sem ég veit ekki hvort þingmaðurinn er mikið á móti.