146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

ójöfnuður í samfélaginu.

[11:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Tölurnar eru á vef velferðarráðuneytisins. Hæstv. ráðherra felldi niður milliþrep í skattkerfinu.

Hvað er eðlilegur ójöfnuður? Ég talaði um að hann væri að aukast. Það er að minnsta kosti ekki ásættanlegt þegar þeim fjölgi sem eru undir lágtekjumörkum. Við sjáum að húsnæðismarkaðurinn er að verða eitt kaos, öngstræti. Gríðarlegur vandi steðjar að, bæði fyrir fólk sem ekki kemst í eigið húsnæði og þá sem eru á leigumarkaði. Allar vísbendingar sýna að fólk á leigumarkaði og börn þess eru í miklu meiri áhættu að glíma við fátækt.

Vegna þessa tilkynnti ríkisstjórnin 24. febrúar að skipaður hefði verið hópur til að bregðast við þessu neyðarástandi á íslenskum húsnæðismarkaði. Hann átti að skila niðurstöðu innan mánaðar. Síðan eru liðnir tveir og hálfur mánuður. Hvað er að frétta, hæstv. fjármálaráðherra Alþingis?