146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

126. mál
[12:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum þetta frumvarp og markmið þess sem eru mjög mikilvæg, að tryggja uppljóstrurum innan fjármálafyrirtækja viðeigandi vernd komi þeir upplýsingum á framfæri og viðeigandi málsmeðferð í slíkum málum. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og gerði grein fyrir honum í umræðum. Hann er sá að við munum sitja hjá við atkvæðagreiðslu um breytingartillögu nefndarmanna meiri hlutans sem miðar að því að ekki verði sérstaklega hvatt til nafnlausra ábendinga. Ég vil þó að það komi mjög skýrt fram í þessum umræðum, eins og kom fram í 2. umr. við málið, að þar með er ekki verið að segja að óheimilt sé að senda inn nafnlausar ábendingar.

Sú lögskýring er algjörlega skýr. Það er ekki óheimilt að senda inn nafnlausar ábendingar en þessi breyting er gerð eftir umsögn Persónuverndar um málið sem (Forseti hringir.) lagði til að ekki væri beinlínis hvatt til þess í lagatexta. Að öðru leyti styðjum við málið en sitjum hjá í atkvæðagreiðslu um breytingartillögurnar.