146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[12:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þessi gríðarlega umfangsmikli lagabálkur byggir á þingsályktun sem var samþykkt á þinginu sl. haust þar sem menn skiptust mjög eindregið í fylkingar um hvort sú tillaga bryti í bága við stjórnarskrá Íslands um framsal valdheimilda. Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagðist gegn þeirri tillögu, við greiddum atkvæði gegn henni eins og raunar öll stjórnarandstaðan á þeim tíma. Af þeim sökum munum við sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Við teljum að umræðan á þeim tíma hafi ekki verið nægjanleg og hafi undirstrikað nauðsyn þess að á Alþingi nái menn saman um fullnægjandi ákvæði um takmarkað framsal valdheimilda í stjórnarskrá og raunar ótal mörg önnur ákvæði í stjórnarskrá. Við munum því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls þótt við séum sammála þeim meginmarkmiðum sem það felur í sér um aukið eftirlit á fjármálamarkaði. En þessari umræðu er ekki lokið hér í þessum sal. (Forseti hringir.) Það er orðið mjög brýnt að Alþingi Íslendinga takist á við það framsal valdheimilda sem hér hefur farið fram á ýmsum sviðum á undanförnum árum og svari þeirri spurningu með fullnægjandi hætti.