146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ánægður með að ég og hv. þingmaður erum sammála um gildi EFTA og EES. Það vita allir mína skoðun á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Mér hefur fundist sú umræða vera of fyrirferðarmikil og koma niður á öðrum mikilvægum þáttum utanríkisstefnunnar, m.a. utanríkisviðskiptastefnunnar. Mér hefur stundum fundist gleymast í því hve fríverslunin skiptir miklu máli fyrir Ísland. Við Íslendingar værum enn fátæk þjóð ef við hefðum ekki aðgang að öðrum mörkuðum. Við verðum fátæk ef við tryggjum ekki aðgang okkar að öðrum mörkuðum. Það sem ég hef lagt áherslu á í mínum málflutningi er það að við erum í kjöraðstæðum vegna þess að við höfum eitthvað um það að segja sjálf. Síðan getum við farið nákvæmar í ESB-málin ef vilji er til þess. Hv. þingmaður fór yfir það hvað stendur í stjórnarsáttmálanum, það stendur, en þetta er það sem ég er að vísa til með þeim orðum sem hann vitnaði í.