146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er í þeirri stöðu að tala fyrir hönd almennings. Hann verður að meta það sjálfur. Við þekkjum svo sannarlega sjónarmið ákveðinna stjórnmálamanna og það er fínt að þeir haldi sínum sjónarmiðum fram. Það sama á við þann stjórnmálamann sem hér stendur. Ég er tilbúinn til að ræða hvað það þýðir fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið hvar og hvenær sem er. Það er ekki vandamálið.

Hér er hins vegar spurt til hvers ég sé að vísa, en ég held að sú umræða hafi verið of fyrirferðarmikil og hafi verið á kostnað annarra mjög mikilvægra utanríkismála. Ég nefni sérstaklega viðskiptamálin en ef menn vilja ræða um málefni ESB þá er sannarlega um margt annað að ræða þar líka. En það liggur alveg fyrir að það er mjög mikilvægt að ræða utanríkismálin í víðu samhengi. Og jafn mikilvægt og það er að ræða samstarfið á Evrópuvettvangi, og við eigum í margs konar samstarfi við Evrópulöndin og munum eiga það áfram, og prýðileg pólitísk samstaða er um það, þá verða menn að líta víðar og horfa á málin í stærra samhengi.