146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að aðalatriðið, burt séð frá setningum til eða frá, sé að við þurfum að ræða þessi mál. Í mínum huga er þetta mjög einfalt. Við munum aldrei ná að koma á friði og stöðugleika á þessu svæði nema í samvinnu við þær þjóðir og þá aðila sem þarna eru. Ég held að ég upplýsi ekkert leyndarmál hvað það varðar að ég er ekki að samþykkja stjórnarfar í einstökum ríkjum. Við bara komumst ekkert hjá því, það er bara lífsins gangur. Við verðum ekki gerendur eða forysturíki í því. Við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar, sem við höfum svo sannarlega gert og munum gera áfram, en heimurinn er eins og hann er. Hann er ekki eins og við viljum að hann sé. Þetta svæði er landfræðilega frekar langt frá okkur en þegar kemur meira að öryggismálum er það stutt frá okkur. Það sem gerist þar getur haft bein áhrif á öryggi Íslendinga eins og annarra þjóða.