146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið almenn regla að mínu mati að hv. þingmaður sem talaði hér á undan sé málefnalegur og komi með gott innlegg inn þó ég sé ekki alltaf sammála. Mér finnst þetta hins vegar nokkuð mikill útúrsnúningur. Hv. þingmaður veit það, ég fór yfir það í ræðu minni og það er öllum ljóst, að það er auðvitað skelfilegt ástand þegar 65 milljónir manna eru á flótta. Auðvitað snýr það meðal annars að því. Það vita það allir sem vilja. Það sem við erum að reyna að koma í veg fyrir og eigum að koma í veg fyrir er að þessi staða komi upp. Hvernig gerum við það? Það er með því að koma á friði. Það er alla vega númer eitt. Hvað er fólk að flýja? Það er að flýja stríð, hungursneyð og oft slæm stjórnvöld. Það er það sem við erum að vinna gegn. Við getum verið ósammála um ýmislegt, eðlilega, en við skulum ekki fara í hártogun í þessu. Við skulum ekki ætla að einhverjir aðilar hafi ekki áhuga á að koma á friði í heiminum og vilji ekki hjálpa flóttamönnum í ömurlegri stöðu.