146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og sérstaklega góð orð um samstarf við þessa góðu granna okkar. Ég sem forseti Vestnorræna ráðsins fagna því auðvitað. Ég tek undir með ráðherra, ég held að það sé mjög mikilvægt að við byggjum upp enn frekara traust og góð samskipti við þessar grannþjóðir okkar á sem flestum sviðum. Að sjálfsögðu hljóta verslun og fríverslun að vera stór hluti af því, en líka varðandi umhverfismál, menningarmál, menntamál, ferðaþjónustu og ýmsa þætti, eins og komið var inn á.

Þá langar mig í kjölfarið að forvitnast um það hjá hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhverjar frekari fréttir af umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Ég vona svo sannarlega að við náum því í gegn, því að ég held að það sé mikilvægt að við Íslendingar komum líka vinum okkar í Færeyjum og Grænlandi svolítið til aðstoðar við að hafa sterkari rödd í því mikilvæga ráði þar sem þeir eru í rauninni eingöngu aðilar að í dag í gegnum Danmörku.