146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá er of snemmt að segja til um það. Það þarf samstöðu í ráðinu til þess að fá áheyrnaraðild. Það er gríðarleg sókn í það, sem er auðvitað ánægjulegt. Það eru ekki bara lönd sem eru nálægt norðurskautinu — eins og ég nefndi í framsöguræðu minni hefur það sem gerist á norðurskautinu áhrif um allan heim. Mörg ríki, bæði stór og smá, hafa sótt um að verða áheyrnaraðilar. Vilji okkar gagnvart þessum löndum er skýr. Ég er mjög ánægður að heyra áherslur hv. þingmanns og ítreka mikilvægi þess að í þessum málum þurfum við öll að vinna saman og þingmenn skipta þar gríðarlega miklu máli. Vestnorræna ráðið skiptir gríðarlega miklu máli. Ég held að vísu að það sé ekki bara þegar kemur að vinum okkar í Færeyjum og í Grænlandi. Almennt séð held ég að það sé mjög æskilegt að íslenskir þingmenn séu í þingmannasamskiptum og sömuleiðis stjórnmálaflokkar í samstarfi við aðra flokka til þess að auka skilning og tengsl sem eru okkur nauðsynleg ef við ætlum að ná árangri á alþjóðlegum vettvangi.