146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Aðeins út af þessu með framlögin. Menn miða oft við þau í umræðunni, ekki tölurnar. Ef við erum með sömu tölu, þ.e. hlutfall af vergri landsframleiðslu, og landsframleiðslan eykst þá hækkar talan. Stundum vill hv. þingmaður hins vegar tala um hlutfallið af vergri landsframleiðslu. (RBB: Þjóðartekjum, ekki landsframleiðslu.) Hv. þingmaður verður þá að gangast við því að hlutfallið lækkaði líka í tíð Vinstri grænna (Gripið fram í.) og Samfylkingarinnar. (Gripið fram í.) Þannig að ef menn voru að forgangsraða, þá sérstaklega í þróunarmálin, gerðu þeir það ekki með þeim hætti ef menn vilja nota þann mælikvarða. Það var alveg ljóst að upphæðirnar færu niður, það var alveg ljóst af því að þjóðarframleiðslan minnkaði mjög mikið, eðlilega. Það hefur enginn haldið öðru fram. Ég hef ekkert verið að ráðast á hv. þingmenn út af þessu. Það sem ég er að segja er að menn ættu kannski ekki að berja sér á brjóst. Menn lofuðu ýmsu fyrir þær kosningar sem fóru eins og þær fóru. Þetta var svo örugglega ekki eini málaflokkurinn sem var lofað í svo mikið er víst. Látum það liggja milli hluta.

Það sem ég er að vísa hér í eru heimsmarkmiðin og þegar ég tala um þróunarmálin er ég að vísa í að það komi fram, alls staðar þar sem menn hafa verið að leggja áherslu hvað þróunarmálin varðar og heimsmarkmiðin, að meira verður að koma til en opinbert fjármagn. Ég bara hvet hv. þingmenn til að skoða það hvað Norðurlöndin eru að gera og hvað menn eru að tala um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þetta snýst um það að við ætlum að koma þróunarríkjunum á þann stað sem við erum á. Það er markmiðið. Það verður ekki gert bara með þróunaraðstoð, það liggur alveg fyrir. Við Íslendingar erum gott dæmi um það.

Varðandi það að viðkomandi hv. þingmaður hafi samúð með Bretum þá verður bara svo að vera. Það er verkefni bæði fyrir Evrópusambandið og Breta að vinna sem best úr þessu. Við verðum að treysta vinum okkar beggja vegna Ermasundsins til að klára það. Það er hagur allra að það gerist.