146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar þótt kannski hefði spurningin mátt vera skýrari. Það er gott að við hæstv. utanríkisráðherra séum a.m.k. sammála um Pólland. Hins vegar langar mig til að beina spurningu til hæstv. ráðherra um ráðuneytin, hvort ekki sé kominn tími til að við förum aftur að senda fulltrúa ráðuneyta til Brussel til að fylgjast með þeim málum sem eru í gangi þar. Myndi það ekki létta á öllu ferlinu, sér í lagi þegar við á Alþingi erum að fara í endurskoðun á öllu þessu EES? Er ekki kominn tími til þess að utanríkisráðuneytið beiti sér hreinlega fyrir því að slíkt fari inn í fjármálaáætlunina eða a.m.k. til þess að fjármagn sé fyrir hendi til að gera það?

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra þegar kemur að því að við þurfum að fara að vinna samkvæmt þeim stöðlum sem við gerðum okkur fyrir löngu. Það eru tíu ár síðan 2007 var þannig að það er alveg kominn tími til. Ég get ekki undirstrikað hvað það er mikilvægt að við sinnum vel hagsmunagæslu Íslands innan Evrópska efnahagssvæðisins en við þurfum að gera enn betur. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að ráðuneytin fái síðan að hafa sína fulltrúa þarna innan borðs. Ég óska eftir viðbrögðum frá hæstv. ráðherra um nákvæmlega þennan punkt.