146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er ekki sammála henni um að lítil ríki tapi á tvíhliða samningum. Við erum með skýrt dæmi. Við erum með samning við Kína. Við erum aðeins minni en Kína. Ég veit ekki til þess að neinn hafi haldið því fram að við höfum tapað á þeim samningi. Mér finnst söguskýring hv. þingmanns ekki vera rétt. Þegar Bretar gengu í Evrópusambandið á sínum tíma urð þau fræg ummæli Edwards Heaths, þáverandi forsætisráðherra, sem sagði: „Við munum ganga í sameiginlega markaði, ekki pólitískt bandalag.“ Annað kom á daginn. Deilurnar hafa að stærstum hluta gengið út á það að Evrópusambandið og forystumenn þess hafa viljað búa til „federal“ ríki og gengið fast eftir því.

Ég hef ekki séð nein merki þess að Evrópusambandið hafi verið eitthvert sérstakt fríverslunarsamband eða lagt áherslu á það á vettvangi WTO eða GATT fyrir þann tíma að fara í fríverslun. Lokaritgerð mín í stjórnmálafræðinni á sínum tíma var um GATT og WTO, og hef ég fylgst nokkuð grannt með því síðan. Ég held að við eigum að tala um gildin, ekki stofnanir. Viðkomandi stofnun er mjög umdeild, traust á ESB innan aðildarríkjanna hefur farið jafnt og þétt niður á undanförnum áratugum, lýðræðishallinn er mikill og til staðar hafa verið ýmis vandamál. Ef við setjum þessi gildi og segjum: Þú ert ekki fylgjandi gildunum nema vera fylgjandi ESB eða EFTA eða EES-ríki eða hvað það er, þá held ég að við lendum í vandræðum.

Það verður fundur 20. júní í Eystrasaltsráðinu. Ýmislegt hefur áhrif. Ástandið í Tyrklandi hefur áhrif á allt samstarf, en menn eru að reyna að ýta undir þau öfl í Tyrklandi sem eru fylgjandi gildum okkar og vonast til þess að Tyrkland verði áfram lýðræðisríki sem haldi mannréttindi í heiðri.

Varðandi nýju tækifærin. Ég er búinn að minnast á það mjög oft. Annars vegar snýr þetta að því að við erum með tolla á ákveðnum vörum gegnum EES-samninginn, t.d. sjávarafurðirnar. Ég er ósammála hv. þingmanni um að þetta sé einangrunarhyggja hjá Bretum, það er langur (Forseti hringir.) vegur frá. Hv. þingmaður veit það ef hún hefur hlustað á umræðuna, ekki bara síðustu árin heldur áratugina, að Bretar hafa gagnrýnt það mjög (Forseti hringir.) sérstaklega Íhaldsflokkurinn, hvað Evrópusambandið sé lokað. Og þeir ætla sér að fara í aukna fríverslun.