146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:45]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Það kemur sennilega engum á óvart að við ráðherra séum með ólíkar áherslur í Evrópusambandsmálum. En mér fannst áhugavert það sem hann kom inn á og ég held að ég hafi gert nákvæmlega það í ræðu minni áðan, þ.e. að tala um gildin og tala um stóru myndina. Ég var einmitt að gera það, hugsa um stóru myndina, „súmma út“.

Við erum kannski ekki sammála um að Bretar séu að draga sig út úr fjölþjóðasamstarfi Evrópusambandsins. Evrópusambandið er fjölþjóðasamstarf. Það að Bretland sé að draga sig úr því til þess að standa eitt í auknum tvíhliða samskiptum, skil ég sem merki um aukna einangrunarhyggju af hálfu Bretlands, eins það að Bretar hafi talað um að þeir ætli að loka að sér, þeir segja: Við ætlum að hafa strangari landamæragæslu en áður, við erum opin fyrir fólki en aðeins fyrir „the best and brightest“, eins og þeir segja. Það er nú öll opnunin.

Evrópusambandið er ekki bara innri markaðurinn þó svo að Bretar hafi á sínum tíma haldið því fram. Evrópusambandið hefur auðvitað þróast gríðarlega mikið í gegnum áratugina og miklu meira í það að vera pólitískt bandalag. Það þekkjum við vel vegna þess að við erum þátttakendur í þessu pólitíska bandalagi núna. Hvað er samstarf á sviði mennta- og menningarmála annað en ákveðið pólitískt samstarf? Ég tala nú ekki um Schengen, sem fellur einmitt undir innanríkis- og dómsmál Evrópusambandsins? Það er bara hápólitískt. Við erum þátttakendur í þeirri pólitík.

Varðandi lýðræðishallann. Hann hefur oft og iðulega verið gagnrýndur. Hins vegar má spyrja sig hvort lýðræðishallinn fyrir EES/EFTA-ríkin, eins og Ísland, Noreg og Liechtenstein, hafi ekki aukist mikið með tilkomu Lissabon-sáttmálans þar sem við höfum ekki aðkomu að Evrópuþinginu sem er nú orðið jafn ákvarðanatökuaðili á við ráðherrana. Þar höfum við engan aðila. Þar höfum við engan fulltrúa. (Forseti hringir.) Það hefur aukið á lýðræðishallann í EES-samstarfinu.