146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að segja að ef Íslendingar eiga að vera í Evrópusambandinu og ef menn hefðu horft upp á Brussel-valdið eins og það hefur verið, held ég að nokkurn veginn hver einasti Íslendingur myndi segja: Við þurfum að koma okkur héðan út strax. Að hafa fólk sem enginn getur ráðið, enginn getur kosið, með þessi gríðarlegu völd. Í Bretlandi var það þannig að þeir horfðu meira að segja á fólk sem skíttapaði kosningu, var kosið út, eins og Neil Kinnock og Peter Mandelson, sem fer svo í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og er miklu valdameira en ríkisstjórnirnar. Ég hef nú oft heimsótt Evrópuþingið. Þar er fólk með fullkomin skattfríðindi. Fram kemur í fjölmiðlum í Bretlandi að af þeim 50.000 embættismönnum, eða þeim sem starfa í Brussel, eru 10.000 með hærri laun en breski forsætisráðherrann. (Gripið fram í.) Fullkomið forréttindafólk með enga ábyrgð. Kjósendur geta ekki komið nálægt því. Nú getur vel verið að einhver Íslendingur myndi segja: Þetta er bara fínt og við getum upplifað það. Ég held að Íslendingar muni aldrei geta sætt sig við þetta.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hún segir: Við skulum vera opin, við skulum standa við þau gildi. Mér finnst alveg ótrúlega ósanngjarnt gagnvart því fólki sem barðist gegn þessu í Bretlandi, sem búið er að berjast fyrir því innan Evrópusambandsins að það breytist og beiti sér meira fyrir fríverslun, opnist, verði lýðræðislegra, að nú sé komið og sagt við þetta fólk, hvað sem mönnum finnst um það: Heyrðu, allt það sem þú segir er bara einangrunarhyggja. Það finnst mér mjög ósanngjarnt. Og að setja þetta upp þannig að ef menn séu ekki tilbúnir í Brussel-pakkann séu þeir einangrunarsinnar. Það finnst mér eyðileggja málstaðinn. Við erum sammála um að við eigum að standa fast við þau gildi sem við stöndum fyrir, hvort sem það eru mannréttindi, réttarríki eða frjálst efnahagslíf, og við eigum að breiða fríverslun út um heiminn. Við gætum ekki gert það innan Evrópusambandsins. Það er alveg ljóst, það deilir enginn um það.