146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:50]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki tekið undir þetta síðasta. Evrópusambandið hefur nefnilega gert víðtæka fríverslunarsamninga út um allan heim sem aðildarríki sambandsins hafa aðgang að.

Þetta með aðildina að Evrópusambandinu og meint áhrifaleysi aðildarríkja. Við bara getum sagt við hvort annað að við séum ósammála, við höldum bara áfram með það. Þarna er ég algjörlega ósammála þér. Þessi ríki hafa sæti við borðið. Þau hafa sæti í leiðtogaráðinu, í ráðherraráðinu. Þau geta skipað sína framkvæmdastjóra. Þau geta sent inn sína sérfræðinga. Þau eru með Evrópuþingmenn og fleira og fleira. Að gera lítið úr hlutverki Evrópuþingsins sem hefur einmitt verið í stöðugri þróun til þess að mæta þessum lýðræðishalla og tala um einhver laun í einhverjum útúrsnúningi — ég ætla ekki einu sinni að svara því.

En staðreyndin er sú, og ég kom inn á það áðan, að hvað sem hæstv. ráðherra kann að finnast um Evrópuþingið er staðreyndin sú að Íslendingar eiga enga aðkomu að Evrópuþinginu, við höfum enga aðkomu að Evrópuþinginu sem hefur fengið gríðarlega mikilvægt ákvörðunartökuvald til jafns við ráðherraráðið. Þar höfum við enga aðkomu. En það er ekki aukin lýðræðishalli á við það sem áður var, áður en Evrópuþingið fékk þessi auknu völd, þá veit ég ekki hvað. Lýðræðishallinn í EES hefur sennilega aldrei verið eins mikill og núna.

Varðandi Brexit og að það sé ekki einangrunarhyggja, þar erum við aftur ósammála. Ég get þá bara talað við þann rétt tæplega helming Breta sem kaus gegn því að Bretar gengju úr Evrópusambandinu, sem var reyndar ungt fólk í meiri hluta. Meiri hluti ungra Breta kaus með áframhaldandi aðild landsins að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) af því að það sá tækifærin fyrir sig sem felast í aðildinni. Svo getum við líka rætt um Skota og þá umræðu sem verið hefur (Forseti hringir.) í Skotlandi um að þeir sjái fullveldi sínu best (Forseti hringir.) borgið innan Evrópusambandsins, miklu frekar en utan þess.