146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ég sem spyr og hv. þingmaður ákveður hins vegar að svara ekki einni einustu spurningu sem ég spurði hana að, heldur fer í langa útúrsnúninga til að komast hjá því að svara þessum einföldu spurningum.

Ég ætla að svara einni spurningu fyrir hv. þingmann. Það er ekki Evrópusambandið sjálft, það er ekki Brussel sem vill breytast. Stjórnmálamenn, t.d. í Frakklandi og Hollandi og Portúgal, eru að kalla eftir breytingum. En (Gripið fram í.) á móti því berjast hins vegar kommisararnir í Brussel. Það höfum við séð og þekkjum ágætlega.

Hv. þingmaður talaði hér um að ekki megi loka sig utan Evrópusambandsins, að meira frelsi væri fólgið í því að vera í Evrópusambandinu. Hvernig fæst það staðist ef þú getur ekki gert sjálf þína samninga? Er þingmaðurinn ósammála því að ef við göngum í Evrópusambandið þá afsölum við okkur öllum okkar réttindum til að gera til dæmis fríverslunarsamninga? Nota bene, EFTA-ríkin hafa gert mun fleiri fríverslunarsamninga en nokkurn tímann Evrópusambandið. Hv. þingmaður getur flett því upp á Google, reikna ég meira að segja með.

Auðvitað er mikill munur á milli okkar skoðana á Evrópusambandinu. En ég spyr hér ákveðinna spurninga sem hv. þingmaður kýs að svara ekki. Ég spyr spurninga um það: Er ekkert að Evrópusambandinu að mati hv. þingmanns? Hefur atvinnuleysi ekki verið vandamál í Evrópusambandinu? Það er fínt ef hagvöxtur er að aukast. Við græðum á því, Íslendingar, þegar við erum að flytja út til Evrópusambandsins. En hvað hefur gengið á í Evrópusambandinu? Hvað eru margir einstaklingar þar búnir að missa nánast allt? Út af hverju? Út af því hruni sem þar var.

Er jafnræði í Evrópu? Ætlar hv. þingmaður að segja mér að staða fólks í Suður-Evrópu sé jöfn og fólks í Norður-Evrópu? Ætlar þingmaðurinn líka að segja mér að Evrópusambandið, 500 milljón manna samband, hafi staðið sig frábærlega í að taka á móti einni milljón flóttamanna? Þær réðu ekki við að taka við einni milljón flóttamanna, þessar 500 milljónir, vegna þess að það var ekkert kerfi til þess, ekkert ákvarðanatökuferli til að taka við þessum flóttamönnum, og enn ræður sambandið ekki við það. Þeir treysta á að Tyrkir, hvað sem má nú segja um þá blessaða, bjargi þeim. Nú hafa Tyrkir tangarhald á Evrópusambandinu.