146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Maður kemur ágætlega upphitaður inn í þessa umræðu. Það er svo sem ekki margt nýtt sem kemur fram í þessari skýrslu, en hún er ágæt upptalning á stöðunni og hvað búið er að gera undanfarið. Ég verð að segja, hafandi verið utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili um nokkurt skeið, að ég er býsna ánægður með að sjá hvernig til hefur tekist á þeim tíma. Hér er þó að finna ákveðna stefnubreytingu og ákveðna hluti, ákveðna vinnu sem hefur verið farið í og ég ætla að fara í gegnum það og rekja mig í gegnum skýrsluna á þessum stutta tíma sem ég hef.

Í inngangi er talað um megináherslupunktana sem eru að sjálfsögðu öryggis- og varnarmál og utanríkisviðskipti. Ég staldra við tvennt. Annars vegar að það er alltaf gott að brýna fyrir okkur Íslendingum að öryggis- og varnarhagsmunir okkar byggja á tveimur stoðum, þ.e. samningnum við Bandaríkjamenn og veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Síðan er hér nefnd þjóðaröryggisstefna sem við kláruðum á síðasta kjörtímabili sem var mjög gott. Ég vænti þess að fljótlega munum við geta séð þjóðaröryggisráðið skipað.

Það er líka talað um varnaráætlunargerð. Það er mjög mikilvægt að brýna fyrir hæstv. ráðherra og ráðuneyti að vera á tánum þegar kemur að varnaráætlunargerð fyrir Ísland. Eftir að öryggið minnkaði eða hálfpartinn rofnaði í Evrópu við innrás Rússa í Úkraínu kom í ljós að uppfæra þurfti allar varnaráætlanir. Á sínum tíma átti ekki að uppfæra varnaráætlun fyrir Ísland en við fengum því breytt. Það er mjög brýnt að fylgjast með þessu.

Á bls. 7 er fjallað um þróunarsamvinnuna. En áður en ég kem að bls. 7 ætla ég að staldra við uppáhaldssetningu mína í þessari skýrslu, eða eina af þeim, þær eru býsna margar, og það er þessi: „Nú, þegar umræðan hér á landi um viðskiptastefnuna er að mestu laus úr viðjum kröfunnar um aðild að Evrópusambandinu …“. Þetta finnst mér algerlega dásamlegt því að þetta er alveg hárrétt. Við getum farið að horfa fram á við í staðinn fyrir að velta okkur alltaf upp úr þessu Evrópusambandi, sem einhverjir þrír kannski vilja.

Eins og kemur fram í skýrslunni um þróunarsamvinnuna og ráðherra kom inn á í máli sínu var Þróunarsamvinnustofnun sameinuð inn í ráðuneytið á síðasta kjörtímabili. Nú er hægt að vinna með þennan fjölda starfsmanna sem eitt lið og eina heild sem ég held að verði mjög til bóta og muni gagnast þróunarsamvinnunni mikið.

Mig langar líka að nefna tvennt sem er ekki nefnt sérstaklega á bls. 7 þar sem talað er um áhersluna og auðvitað getur ráðherra ekki lagt áherslu á allt sem honum dettur í hug en það er jarðvegseyðingin og jafnréttismálin sem skipta miklu máli þegar kemur að þróunarsamvinnu og þar eru Íslendingar leiðandi, ekki síst er eftir því tekið núna varðandi jarðvegseyðingu þar sem við getum lagt mikið til málanna. Síðan er ég algerlega sammála ráðherra að ef við ætlum að ná heimsmarkmiðunum þurfum við að leita til einkaaðila. Þau nást ekkert öðruvísi. Það þýðir ekkert að berja hausnum við steininn í því. Við verðum að fá aðstoð frá einkageiranum. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Kannski má velta fyrir sér hvort einkageirinn á Íslandi sé að hjálpa til. Sjávarútvegurinn hefur verið að endurnýja skip og tekið upp miklu eyðslugrennri skip sem fara betur með orkuna o.s.frv. Allt þetta hjálpar til.

Á bls. 9 er rætt um borgaraþjónustu. Borgaraþjónustan er eitt af stóru hlutverkunum í þessari litlu utanríkisþjónustu sem Íslendingar eru með. Þar skipta þessir 240–250 kjörræðismenn lykilmáli. Þeirra hlutur er síst ofmetinn. Mikilvægt er að halda til haga að þessir útverðir okkar skipta gríðarmiklu máli. Hugsanlega hafa þeir áhuga á að gera meira fyrir okkur en að bjarga Íslendingum í einhverjum vandræðum.

Á bls. 14 og áfram er talað um alþjóða- og utanríkismál. Ég ætla að stoppa þar við tvennt. Það er Rússland og Tyrkland. Það er ekki svo að íslensk stjórnvöld vilji troða illsakir við Rússa. Það er ekki þannig. Rússar réðust hins vegar inn í Úkraínu og innlimuðu Krímskaga sem er brot á alþjóðalögum. Við getum ekki setið hjá þegar menn ganga fram með slíkum hætti vegna þess að okkar hagsmunir, meginhagsmunir, byggja á að alþjóðalög séu virt. Þess vegna er ég ánægður með að hæstv. utanríkisráðherra er mjög staðfastur í því eins og við var að búast. Um Tyrkland ætla ég bara að segja eitt: Ég hef miklar áhyggjur af þeirri þróun sem á sér stað í Tyrklandi. Þar virðist vera sem þau viðmið sem flestar vestrænar þjóðir, ekki síst Íslendingar, setja sér um málfrelsi og mannréttindi séu þverbrotin á nánast hverjum degi eftir valdaránið sem var reynt þar og var að sjálfsögðu ólöglegt og átti aldrei að eiga sér stað. Erdogan og hans lið virðast hafa nýtt sér það til að sækja sér meiri völd. Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að Ísland á vitanlega í miklu sambandi og samstarfi við Tyrki, sérstaklega innan NATO. Ég hef áhyggjur af því að framferði Tyrkja eigi eftir að koma í bakið á NATO-samstarfinu, þótt síðar verði. Ég er ekki að segja að það verði og get ekki sagt hvernig en ég hef áhyggjur af þessu. Þetta er óeðlilegt og ekki í anda NATO-samstarfsins og sáttmála NATO.

Málefni Sameinuðu þjóðanna eru gríðarlega umfangsmikil enda eru Íslendingar mjög virkir þátttakendur í samstarfi því sem þar fer fram. Ég ætla að leyfa mér að koma því hér á framfæri að Sameinuðu þjóðirnar gegna mikilvægu hlutverki en samt er mjög mikilvægt að á hverri stundu, hverju ári, sé farið og gagnrýnt hvernig vinnubrögð Sameinuðu þjóðanna eru því enginn má vera yfir gagnrýni hafinn. Ég ætla að leyfa mér sérstaklega að taka út öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem er í dag stofnun sem virkar ekki eins og hún á að virka. Þetta er stofnun sem á að koma í veg fyrir átök, stuðla að friði, en gerir það ekki. Þar eru þessi örfáu ríki sem hafa neitunarvald í ráðinu og beita því óspart til að koma í veg fyrir að menn stöðvi átök eða stríð.

Mig langar að fagna því að hér er minnst á samning við landsnefnd UN Women og HeForShe-átakið. Það er mjög mikilvægt að ráðherra og ráðuneyti haldi áfram að virkja karla til þátttöku í jafnréttismálunum.

Kaflinn um umhverfis- og auðlindamál er líka mikilvægur, eins og að sjálfsögðu allir kaflarnir í skýrslunni. Ég ætla að leyfa mér að staldra við jarðvegsmálin sem ég nefndi lauslega áðan. Í þeim málaflokki hefur verið tekið eftir árangri Íslands við að berjast gegn eyðimerkurmyndun. Stærsta eyðimörk í Evrópu var á sínum tíma á Íslandi. 1907 að mig minnir eru fyrstu lögin sett um landgræðslu og að verja land á Íslandi. Við höfum mikla reynslu og frábæra fagmenn, nota bene, sem geta miðlað af sinni reynslu við að gera land aftur nýtilegt.

Þegar kemur að jarðhita eigum við að sjálfsögðu að halda áfram að flytja út okkar þekkingu og ánægjulegt að sjá að verkefni í Úkraínu eru á fullri ferð.

Hafréttarmálin á bls. 22. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland. Ég leyfi mér að setja þau í samband við það sem ég nefndi áðan, alþjóðalög og alþjóðareglur, alþjóðasáttmála, ég vísa til innrásar Rússlands í Úkraínu. Alþjóðalög og -samningar eins og hafréttarsamningar Sameinuðu þjóðanna veita okkur ákveðin réttindi og ákveðnar skuldbindingar að sjálfsögðu líka. Um þetta þurfum við að standa vörð. Ef við gerum það ekki og heykjumst á að gagnrýna aðra sem brjóta alþjóðalög og alþjóðasamninga getum við ekki stólað á að aðrir virði þá samninga sem við erum aðilar að. Það er mjög mikilsvert að hafa þetta í huga.

Hér er kafli um upplýsingamiðlun. Það er mjög mikilvægt að utanríkisráðuneytið miðli upplýsingum um það sem ráðuneytið er að gera. Ráðuneytið hefur á sér þá mynd, með réttu eða röngu, að vera frekar lokað og ekki alveg ljóst hvað þar fer fram, en þetta er þjónustustofnun. Hún þjónustar Íslendinga, þjónustar einstaklinga og fyrirtæki og gætir hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi. Slík stofnun á að segja frá því sem hún gerir mjög skilmerkilega.

Virðulegi forseti. Ég staldra aðeins við rekstur utanríkisþjónustunnar. Ég fagna því sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur áðan. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Auðvitað vantar okkur fjármuni í alla skapaða hluti. Það er óhætt að segja það. En utanríkisþjónustan þarf verulega á auknum fjármunum að halda til þess að geta gætt okkar hagsmuna og tekið þátt í þeim breytingum sem eru að verða á alþjóðavettvangi í dag, það er það sem skiptir máli, hvort sem það er í öryggis- og varnarmálum eða viðskiptamálum. Þar er ég sammála hæstv. ráðherra, það er afar mikilvægt að leggja áherslu á viðskiptin.

Ef við rýnum í tölurnar fær eiginleg starfsemi utanríkisráðuneytisins eingöngu 0,7% af A-hluta fjárlaga. Obbinn, 58%, eitthvað svoleiðis, fer í þróunarsamvinnuna af öllum fjármunum sem eru merktir utanríkisþjónustunni. Það eru miklir peningar og mættu örugglega vera meiri. Við getum verið sammála um það. En hinn hlutinn þarf líka að vaxa, sá sem snýr að því að gæta að hagsmunum okkar.

Síðan staldra ég við bls. 29. Hér er á ferðinni mál sem er löngu tímabært. Í raun hefði sá sem hér stendur átt að hrinda því í framkvæmd. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé að kortleggja starfsemi þjónustunnar og fara ofan í saumana á því hvernig hún eigi að vera, hvar hún eigi að vera og hvernig við eigum að veita hana. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Kannski á þetta að vera mál sem rúllar alltaf og er gert reglulega. En þetta hefur ekki verið gert í langan tíma og er mjög mikilvægt. Við alþingismenn eigum að bakka hæstv. ráðherra algerlega upp í því að fara í þessa vinnu og taka því fegins hendi þegar niðurstaðan kemur.

Síðan ætla ég að lokum að staldra við bls. 32–33 þar sem talað er um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, Brexit. Við fórum reyndar ágætlega yfir það áðan í andsvörum, við hæstv. ráðherra, við hv. þm. Jónu Sólveigu Elínardóttur. Engum dylst að Bretland er okkar stærsta einstaka viðskiptaland. Það vitum við. Evrópusambandið er stórt, já, innri markaðurinn skiptir okkur miklu máli en tölurnar sýna hvað Bretland er afskaplega mikilvægt. Því verður að setja mikla vinnu í þessar Brexit-vörur og kortlagningu eins og hér hefur komið fram. Við erum að tala um viðskiptahagsmuni, frjálsa för fólks, menntun, atvinnuleyfi, jafnvel skattamál, ferðaþjónustuna. Síðan megum við ekki gleyma því að við eigum fullt af sameiginlegum hagsmunum með Bretum. Þar má nefna varnarmálin og málefni hafsins. Ef við horfum á landakortið og sjáum tengslin, Bretland, Ísland, Norður-Ameríka, er alveg augljóst að hagsmunir okkar í Norður-Atlantshafi fara mjög kirfilega saman. Það eru ekki bara varnarmálin heldur líka auðlindanýtingin sem þar skiptir miklu og líka hvernig við verjum auðlindina og umhverfismálin. Allt þetta skiptir að sjálfsögðu máli. Við eigum líka annað sameiginlegt. Það eru þúsundir starfa á Íslandi og Bretlandi vegna þess að við eigum í viðskiptum saman, vinnum saman. Þessi störf eru í ferðaþjónustu á Íslandi, svo dæmi sé tekið. Í Bretlandi eru þessi störf kannski meira í sjávarútvegi því við flytjum út gríðarlega mikið af fiski. Ég fullyrði ekki að þær tölur sem ég læt út úr mér núna séu réttar en ég heyrði einhvern tíma að þetta væri á bilinu milli 10–15 þúsund störf í Bretlandi vegna íslensks fisks. Það getur vel verið að það sé allt annað í dag eða bara vitleysa. Það eru alla vega mörg störf. Við vitum það.

Hér á bls. 33 er kafli nr. 1.3 Markmið og starf fram undan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Greina áhrif af úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu og kortleggja mikilvægustu hagsmuni Íslands í viðskiptum við Bretland sem og samráð við bresk stjórnvöld, samstarfsríki Íslands í EFTA og Evrópusambandið.“

Það er mjög mikilvægt að í því mati og þeirri greiningu sem fara á í um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og áhrif á Ísland að það verði gert út frá hagsmunum Íslands og Bretlands. Það gæti einhver tekið upp á að skilja þessa setningu þannig að það eigi að spyrja Evrópusambandið svolítið mikið í þessum viðræðum öllum og hagsmunamati, að Evrópusambandið eigi að vera einhvers konar ráðgjafi þegar kemur að mati á hagsmunum Íslands og Bretlands. Ég held að það sé ekki þannig, meiningin sé ekki sú. En við verðum að passa okkur á því að það séu bara hagsmunir Íslands og Bretlands sem verða á borðinu. Það er gríðarlega mikilvægt.

Virðulegur forseti. Þetta minnir mig á að það þarf að koma ljós hér í borðið, virðulegi forseti, svo maður viti hvort það er karl eða kona í forsetastól. Það er ekki hægt að ávarpa forseta sem herra forseta þegar það er frú forseti. Maður þarf alltaf að líta við. (Utanrrh.: Spegil.) Já, spegil. Hæstv. utanríkisráðherra er mjög lausnamiðaður maður, ég fagna þessu.

Ég er ekkert hrifinn af því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Vil það bara alls ekki. (Gripið fram í: Ha?) Nei, svei mér þá. Við höfum ekkert þar að gera. En ég hef hins vegar áhyggjur af því ef okkar helsta viðskiptasvæði í dag flosnar upp með einhverjum hætti. Vandi Evrópusambandsins er fyrst og fremst hroki, segi ég. Það er hroki gagnvart núna Bretum, því þeir vilja ganga úr þessu sambandi. Það segir okkur að litla Ísland myndi aldeilis lenda í kröppum dansi ef það vildi yfirgefa þetta samband sem það fer vitanlega aldrei inn í. En það er þessi hroki (Forseti hringir.) og að sýna Bretum lítilsvirðingu í stað þess að setjast niður og segja: Já, við viljum ekki missa ykkur, þetta er vitleysa í ykkur, kæru vinir, (Forseti hringir.) en að sjálfsögðu reynum við að ná samningi sem er góður fyrir báða aðila.