146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, sem kom víða við og talaði af mikilli þekkingu, sem kemur kannski ekki á óvart þar sem hann hefur gegnt stöðu hæstv. ráðherra. Ég er sammála flestu sem þar kom fram. Hann benti á hluti sem hafa kannski ekki verið mikið í umræðunni, t.d. varðandi landgræðsluna. Þar erum við að gera það sama og með jarðhitann og sjávarútveginn, nokkuð sem við kunnum og höfum góða reynslu af. Við miðlum henni til annarra þjóða.

Jafnréttismálin eru annar málaflokkur. Við erum líka með fleiri málaflokka þar sem við getum látið gott af okkur leiða.

Hv. þingmaður er jákvæður gagnvart stöðumati okkar, kortlagningu þjónustunnar, mati á því hvernig við ætlum að skipuleggja hana í nánustu framtíð. Ég vil nota tækifærið og taka undir hvatningu hans til þingmanna. Við gerum ekkert ein, eins og hv. þingmaður nefndi, við kölluðum á alla fyrrverandi hæstv. ráðherra og það er illa geymt leyndarmál að það hefur komið mjög margt og gott út úr því. M.a. kom hv. þingmaður mjög vel undirbúinn til leiks. Ég veit að stýrihópurinn tók mikið mið af því. Það sama á við um hina fyrrverandi ráðherrana sem allir hafa reynslu af þessu, allir eru tilbúnir til að koma með sitt innlegg. Ég tel líka mikilvægt og það verður gert — búið er að tala við hv. utanríkismálanefnd og líka hv. alþjóðanefndirnar, því að þetta er ekkert einkamál utanríkisþjónustunnar heldur mál okkar allra. Þó að við tökumst á um ýmsa hluti hér er þingheimur, ef saman er tekið, sammála í langflestum atriðum. Við hv. þingmaður tölum oft um Evrópumálin. Þar eru (Forseti hringir.) meira að segja allir á sama báti. Evrópuríki sem eru innan Evrópusambandsins, Bretland, ég tala nú ekki um EFTA-ríkin. Og svo hafa menn vonandi vit á að stilla saman strengi.