146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ég og hv. þingmaður höfum ekki tekist á um þessi mál síðan í Menntaskólanum á Akureyri fyrir örfáum árum. Ég ætla aðeins að gera að umtalsefni það sem hann talaði um varðandi Evrópusambandið.

Ég held að ekki sé hægt að halda öðru fram en að við séum að mestu laus við kröfuna um inngöngu í Evrópusambandið þegar enginn flokkur, alla vega ekki opinberlega, er með það á stefnuskrá að ganga inn eins og gengur annars staðar. Kannski er það misskilningur. Kannski er það Samfylkingin sem vill ganga inn. En það er margt rangt sem kemur fram í ræðu formanns Samfylkingarinnar. Við tökum ekki meiri hluta gerða ESB inn í EES-samninginn. Frá 1994 eru þetta um 11%. Við höfum aðgang, eins og ég hef farið hér yfir, á upphafsstigum ef við nýtum það og það höfum við hugsað okkur að gera.

Af hverju heldur hv. þingmaður að vextirnir séu 0% á evrusvæðinu, ekki á öllu svæðinu en meðal annars í Evrópu? Heldurðu að það komi til af góðu? Heldurðu að það sé vegna þess að það sé svo stórkostlegt efnahagslegt ástand að þeir ákveði að hafa vexti núll prósent? Vill hv. þingmaður fá það efnahagsástand sem við horfum á þar, þar sem vextirnir eru núll prósent? Er hv. þingmaður að biðja um það? Ég hvet hv. þingmann til að svara því.

Talandi um að ef við værum í ESB fengjum við bestu viðskiptasamningana: Ég hvet hv. þingmann til að bera saman viðskiptasamninga Íslands sem við fáum í gegnum EFTA og tvíhliða samninga. Við vorum fyrsta vestræna ríkið sem fékk viðskiptasamning við Kína, svo að dæmi sé tekið. Varðandi Bandaríkin var það mál því miður löngu dautt áður en Trump kom. Þá var það reyndar þannig að Bandaríkjamenn, þeir kynntu okkur það á EFTA-fundi, vildu leyfa öðrum þjóðum eins og Íslendingum og EFTA-ríkjunum að vera aðilar að því. Evrópusambandið var svona frekar til baka hvað það varðaði.

Varðandi Brexit og þróunaraðstoð. Ég hef komið hvenær sem ég hef verið beðinn um það fyrir utanríkismálanefnd, og mun gera það áfram, til að ræða þau mál. Ég vil svo gjarnan gera það. Hins vegar stendur ekki á mér. En ég vil biðja hv. þingmann að hætta að tala EES-samninginn niður. Þegar hv. þingmaður segir að EES-samningurinn dugi varla lengur fyrir Ísland er hann að tala hann niður. Stjórnmálamenn eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) hafa komið Noregi í þá stöðu að nú er stór hluti Norðmanna sem vill fara út úr þeim góða samningi því að menn eru að tala hann niður.