146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[15:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér boðaði ég einmitt ekki að við værum að fara í aðildarviðræður. Ég kallaði hins vegar eftir því hvort ekki væri rétt að láta þjóðina taka ákvörðun um það og slá það þá út af borðinu næstu ár eða áratugi hvort hún vildi skoða það. Ég held að margt blasi við sem gerir að verkum að við förum ekki þarna inn á næstu misserum. En í skýrslunni er það dregið fram að búið sé að vísa þessu máli af dagskrá þrátt fyrir að hér séu tveir stjórnarflokkar sem höfðu það að markmiði í kosningabaráttunni að láta þjóðina fá að ráða. Mér finnst það lítilsvirðing hæstv. utanríkisráðherra gagnvart flokkum, þó að smáir séu, að virða ekki það orðalag sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum sem kveður á um það hvað gerist ef mál kemur fram á þinginu. Það er það sem ég var að tala um. Ég var ekki að boða neina baráttu fyrir því að við gerðum eitt eða neitt. Við höfum talað um það allir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn líka, að þjóðin ætti að skera úr um það. Ég var bara að óska eftir því að menn myndu standa við það. Það voru nú allar kröfurnar.