146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Nichole Leigh Mosty hennar erindi. Ég þakka henni kærlega fyrir að vekja athygli á réttindum LGBT-fólks sem klárlega vantar hér í skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál. Ég tek undir með henni í þeirri hvatningu að setja þau ofar á dagskrá hjá hæstv. utanríkisráðherra.

Mig langar að spyrja hv. þingmann Bjartrar framtíðar, sem hefur eftirfarandi stefnuyfirlýsingu á heimasíðu sinni varðandi Evrópusambandið, með leyfi forseta:

„Löndum góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Eins er kveðið á um þetta í stjórnarsáttmála sem Björt framtíð á aðild að:

„Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi.“

Telur hv. þingmaður stjórnarsáttmálann samræmast því sem kemur fram á bls. 6 í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra:

„Nú, þegar umræðan hér á landi um viðskiptastefnuna er að mestu laus úr viðjum kröfunnar um aðild að Evrópusambandinu, er full þörf á að styrkja starf okkar innan EFTA og EES.“

Er hv. þingmaður sammála þessari staðhæfingu sem fram kemur á bls. 6 í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra?