146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:15]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir að taka undir með mér hvað varðar Tsjetsjeníu. Við eigum að láta heyra í okkur og styðja þessa baráttu og vera meðvituð um að þetta snertir hinsegin fólk hér og um heiminn allan. Það sem við getum gert hér er að hefja upp raust okkar og sýna gott fordæmi og styðja við fólk úti í heimi. Við styðjum líka þá baráttu sem enn hefur ekki verið kláruð hér heima.

Varðandi stefnu okkar í Bjartri framtíð, og það sem við náðum að leiða til lykta með samstarfsflokkum okkar í ríkisstjórn, þá var það mikil málamiðlun. Þetta var það besta sem við gátum gert. Við munum reyna betur og við stöndum við okkar vilja. En hvað varðar málalyktir þá eru menn stundum ósammála en við reynum að finna leið þar sem halda má áfram að vinna með þessa málamiðlun. Þannig lít ég alla vega á það.

Varðandi spurningu um það sem stendur í skýrslunni á bls. 6: Nei, ég get alveg tekið undir það, ég er ekki sammála því. Við getum enn gert betur.