146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka þakkir mínar til ráðherra fyrir þessa góðu skýrslu og þakka líka hv. þingmönnum fyrir umræðuna sem hefur verið hér. Hún hefur verið málefnaleg og góð, á köflum svolítið hávær, og farið um víðan völl.

Mig langar þó aðeins að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið um mannréttindamál og þær áherslur sem hæstv. utanríkisráðherra heldur uppi fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Það segir á bls. 8 í innganginum:

„Virðing fyrir mannréttindum er ein af grunnstoðum utanríkisstefnunnar og eru íslensk stjórnvöld málsvarar mannréttinda á vettvangi fjölþjóðstofnana …“

(Forseti (JSE): Forseti vill minna þingmenn á að æskja leyfis forseta áður en lesið er beint upp úr prentuðu máli.)

Afsakið, forseti. Með leyfi forseta, má ég halda áfram lestri mínum? Ég biðst afsökunar á þessu.

Hér er farið yfir að þetta séu sérstakar áherslur í utanríkisþjónustunni og hvert tækifæri hafi verið nýtt til að halda á lofti jafnrétti kynjanna, réttindum hinsegin fólks og réttindum barna. Ég fyrir mitt leyti styð heils hugar þá áherslu og held að það taki af öll tvímæli sem komu fram í ræðum og andsvörum á undan um áherslur okkar í utanríkisþjónustunni. Þetta er býsna skýrt.

Mig langaði að fagna sérstaklega þeirri endurskoðun sem á sér stað núna og áherslum á markmið utanríkismála. Það segir í skýrslunni að sú endurskoðun hafi átt sér stað reglulega en reyndar síðast farið fram árið 1998. Ég veit ekki hvort mér þykir það neitt sérstaklega reglulegt þegar hún á sér svo aftur stað árið 2017, en engu að síður held ég að þetta sé mjög tímabært. Við í hv. utanríkismálanefnd höfum fengið kynningu á þeirri vinnu. Ég hlakka til að fylgjast með því sem út úr því kemur. Eins og kemur fram í skýrslunni og öllum kann að vera ljóst er utanríkisþjónusta Íslendinga tiltölulega smá í sniðum, enda hér um litla þjóð að ræða, og því mjög mikilvægt í mínum huga að markmiðasetningin sé skýr, forgangsröðunin og það sem við ætlum að leggja áherslu á.

Ég ætla að koma aðeins inn á fyrsta kaflann um borgaraþjónustuna. Í skýrslunni eru færð rök fyrir því að sú þjónusta hafi orðið umfangsmeiri, enda séu Íslendingar meira á faraldsfæti og fleiri Íslendingar búi erlendis. Þá ætla ég að ítreka þá skoðun mína að það eigi ekki endilega að þýða aukinn tilkostnað í þessari ágætu þjónustu og vil ég brýna hæstv. ráðherra áfram í að gæta mikillar hagkvæmni í rekstrinum. Þarna eigum við að reyna að veita sem besta þjónustu með sem minnstum tilkostnaði. Þá tel ég mikilvægt að við horfum ekki á hausatalningar, ef ég má orða það svo, með fullri virðingu fyrir okkar góðu embættismönnum í sendiráðunum, heldur fyrst og fremst að sendiráðin geti unnið saman að þessu, upplýsingatækni sé nýtt og þarna séu skýrir ferlar og verklag til að ná fram sem hagkvæmustum þætti þjónustunnar. Ég æski þess, þar sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur iðulega haldið uppi umræðu um hagkvæmni í opinberum rekstri, að hann tryggi það áfram þótt hann sé kominn í ráðuneytið.

Ég ætla líka að fagna því að norðurslóðamálin séu hér á dagskrá. Með leyfi forseta, er hér ritað:

„Málefni norðurslóða snerta næstum allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu.“

Ég fagna því innilega og er sammála hæstv. ráðherra í þeim efnum. Ég fór upp í andsvör við hann áðan þar sem við ræddum aðeins um Vestnorræna ráðið og mikilvægi þess að við eigum gott samstarf við góða granna okkar. Í því sambandi langar mig að drepa niður í kaflanum um loftslagsmál. Með leyfi forseta, segir hér:

„Hlýnun jarðar er ein mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Viðbrögð við loftslagsbreytingum eru því einn af meginþáttum í málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi. Sérstök áhersla er lögð á áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess og á lífsafkomu á norðurslóðum.“

Þetta er gott og mjög mikilvægt mál. Öll okkar framtíðarsýn býr svolítið í þessu, hafinu í kringum okkur. Þá langar mig að vekja athygli á því að nú eru í undirbúningi hjá Evrópusambandinu áherslur fyrir næstu rannsóknaráætlun sem mun taka við af Horizon 2020. Ég held að mjög mikilvægt sé að við tryggjum það að koma á framfæri sjónarmiðum okkar um að þar verði einn af áhersluþáttunum málefni hafsins og áhættan við súrnun sjávar. Ég ætla að hvetja ráðherrann áfram í því. Ég veit reyndar að sá málaflokkur er að einhverju leyti líka undir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og treysti því að þeir vinni saman að þessu.

Þá langar mig að koma næst að þróunarsamvinnunni. Ég er komin á bls. 28 í skýrslunni þar sem er ágætismynd um hvernig fjárlög utanríkisþjónustunnar skiptast. Þar er þróunarsamvinnan stærsti þátturinn, 35%, og alþjóðastofnanir 12%. Ég fagna því. Mér finnst mjög eðlilegt að þróunarsamvinnan sé stærsti þátturinn af útgjöldum ráðuneytisins. Við höfum lagt töluvert til þróunarsamvinnu. Það hefur farið vaxandi á síðustu árum. En ég vil þó brýna ráðherrann áfram í því að við stefnum skýrt að markmiðum okkar hvað þetta varðar. Ég vona innilega að við getum náð þeim einhvern tíma á næstu árum. Ég treysti því að ráðherra horfi mjög til þess.

Þá langar mig að fara aðeins yfir viðskiptahagsmuni okkar og áhugaverða töflu á bls. 35 þar sem kemur fram að Holland er risastórt viðskiptaland, sem ég held reyndar að sé það ekki endilega heldur er þar fyrst og fremst um að ræða uppskipunarhöfnina. Mér er kunnugt um að ráðherra hefur vakið máls á því að vilja gjarnan afla frekari upplýsinga og greininga á því hvert þessar vörur fara. Það er mikilvægt að við vitum hver eru helstu viðskiptaríki okkar. Það væri áhugavert ef hæstv. ráðherra gæti í ræðu sinni á eftir farið aðeins yfir það hvaða leiðir við getum nýtt til þess því að ég tek heils hugar undir að það er mikilvægt.

Það er áhugavert að skoða þessa töflu, ekki síst í ljósi myndarinnar á næstu blaðsíðu, bls. 37. Við megum ekki horfa bara á hvar viðskiptahagsmunirnir okkar liggja í dag heldur eigum við að vera framsýn og horfa til framtíðar, hvar verða tækifæri okkar og viðskiptahagsmunir í framtíðinni? Þar er mjög skýrt að myndin er að breytast töluvert með stækkun millistéttar í Kína og á Indlandi. Það væri líka áhugavert ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það hvernig við tryggjum framtíðarhagsmuni okkar á þeim svæðum.

Að síðustu langaði mig að koma inn á mál sem er mér mjög hugleikið og ég léði máls á í umræðu um upplýsingatæknimál og tölvumál hins opinbera og það eru netöryggismál. Í fljótu bragði sá ég ekki mikið minnst á þau í skýrslunni. Það kann þó að vera að það hafi farið fram hjá mér. Ég átta mig á að málaflokkurinn sem slíkur heyrir undir sveitarstjórnar-, samgöngu- og fjarskiptaráðherra en ég tel þennan málaflokk vera það mikilvægan að mjög öflugt samstarf þurfi að vera á milli ráðuneyta þegar kemur að þeim málum. Þá er ég bæði að tala um rafræna stjórnsýslu almennt og sérstaklega þann þátt sem snýr að netöryggismálum. Þar myndi ég ætla að eins og í svo mörgu öðru sé hagstætt og gott fyrir okkur að vera í góðu samstarfi við önnur lönd. Maður veltir fyrir sér samstarfi við Norðurlöndin og NATO sem ég veit að léði máls á þessu og er án efa að vinna eitthvað að því. En ég óttast að við séum kannski heldur veik á því sviði og þurfum að gefa svolítið í og gefa því málefni meira vægi.

Að því sögðu þakka ég kærlega fyrir góða skýrslu og góðar og gagnlegar umræður.