146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:32]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir afar greinargóða skýrslu og framsögu í málinu. Ljóst er að íslensk utanríkisstefna stendur á ákveðnum tímamótum vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Bretland er okkar stærsta viðskiptaþjóð og mun það umrót sem á sér stað í Evrópu vegna þessa hafa talsverð áhrif á okkur. Eins og þingheimi er kunnugt um var 50. gr. Lissabon-sáttmálans virkjuð í lok mars. Þar með er útganga Bretlands úr Evrópusambandinu formlega hafin.

Bretar hafa tvö ár til að ljúka við útgöngusamninginn. Leiðtogar og embættismenn Evrópusambandsins og Bretlands þurfa að semja um viðskiptakjör við aðrar þjóðir, þar á meðal aðildarþjóðir EES-samningsins. Þegar útgöngusamningurinn tekur gildi verður Bretland ekki lengur aðili að samningum ESB, eins og til að mynda EES-samningnum. Mikilvægt er að hafa hugfast að viðskiptasamningar milli Íslands og Bretlands verða enn í gildi meðan sú vinna stendur yfir. Stjórnvöld þurfa að vinna markvisst að því að tryggja að góðir samningar náist fyrir Íslands hönd á öllum sviðum þeirrar samvinnu sem Ísland og Bretar hafa stofnað til.

Í mínum huga stendur Ísland frammi fyrir þremur sviðsmyndum. Í fyrsta lagi að gerður verði einhliða samningur við Bretland sem nær þá til allra þeirra sviða sem um er að ræða. Í öðru lagi að gerður verði tvíhliða samningur EFTA-ríkjanna og Breta. Og í þriðja lagi að EES-ríkin komi inn í útgöngusamning sem Evrópusambandið gerir við Bretland.

Það er afskaplega mikilvægt að við áttum okkur á því að allar þessar sviðsmyndir hafa sína kosti og galla. En við þurfum þó að vinna að þeim öllum á sama tíma vegna þess að ekki er alveg ljóst hvort Evrópusambandið og Bretar ná að gera útgöngusamning á þessu tveggja ára tímabili.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í það sem stendur í skýrslunni þegar hann segir að það megi enn bæta markaðsaðgang fyrir íslenskan útflutning til Bretlands. Hvað hefur hæstv. utanríkisráðherra þar helst í huga?

Mig langar aðeins að fara frekar yfir stöðuna í Evrópu vegna Brexit. Ástæða þess að Bretar gengu úr bandalaginu er sú að það skortir að mínu mati hreinlega pólitíska ábyrgð og stefnumótun innan Evrópusambandsins. Það leiddi skuldakreppan í Evrópu mjög vel í ljós og er Grikkland eitt besta dæmið um það. Það er líka mjög áhugavert að heyra franska forsetaframbjóðandann Macron ræða um framtíð Evrópusambandsins. Hann talar að mínu mati eins og mjög margir Framsóknarmenn hafa gert síðustu daga þegar hann segir: Það verður að gera umbætur á þessu bandalagi. Það er nefnilega þannig að Evrópusambandið hefur ekki hugað að hinni pólitísku ábyrgð sem er svo mikilvæg. Ég varð mjög hissa þegar ég heyrði hv. formann utanríkismálanefndar ræða stöðuna í Evrópusambandinu. Það var eins og það hefði algerlega farið framhjá formanninum hvaða þróun hefur átt sér stað á undanförnum misserum. Það er afskaplega brýnt að þeir sem tala fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi hafi raunsætt mat á stöðu Evrópusambandsins.

Virðulegi forseti. Mig langar næst að víkja að málefnum norðurslóða sem fá sífellt meira vægi í utanríkismálum þjóðarinnar. Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem Norðurskautsríki. Ísland er eina ríkið sem býr við það að allir borgarar þess búa á norðurslóðum. Stór hluti landhelgi okkar er innan norðurslóða, þar með talinn langstærsti hluti fiskimiða okkar. Hagsmunir Íslands felast í því að nýta tækifærið með ábyrgum og sjálfbærum hætti og einnig að geta brugðist hratt við ef hættu ber að höndum. Auknum siglingum og annarri starfsemi gætu fylgt ýmsar hættur gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans.

Mikilvægt skref í þá átt var stigið í aðdraganda Parísarsamningsins um loftslagsmál og í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt var samhljóða á síðasta ári, er þetta eitt af forgangsmálefnum er varða öryggis- og umhverfishagsmuni norðurslóða.

Ég er á þeirri skoðun að mikilvægi málefna norðurslóða muni halda áfram að vaxa, sérstaklega vegna þeirra áskorana sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér í Norður-Íshafi. Ísland þarf að vera mjög virkur þátttakandi í málefnum norðurslóða og fagna ég þeirri áherslu sem fram kemur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra þar um.

Fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra að öryggi Íslands og varnir séu tryggð með virku samstarfi við önnur ríki. Þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins og ÖSE og varnarsamningur við Bandaríkin eru meginstoðir í stefnu Íslands um öryggis- og varnarmál. Ályktun Alþingis um þjóðaröryggisstefnu markar heildstæða stefnu í þessum mikilvæga málaflokki.

Að mínu mati þarf að skýra stefnu í þessum málaflokki innan ráðuneytisins enn frekar. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra hvort komi til greina að setja á laggirnar sérstaka skrifstofu innan ráðuneytisins um öryggis- og varnarmál. Sjálf tel ég það skynsamlegt vegna þess að í tíð síðustu ríkisstjórnar var samþykkt ályktun um þjóðaröryggisstefnu og í kjölfarið sett á laggirnar þjóðaröryggisráð. Ég tel að ramminn í kringum þennan málaflokk innan ráðuneytisins mætti vera skýrari.

Vestnorræn samvinna skiptir Ísland miklu máli og fagna ég þeim auknu samskiptum sem átt hafa sér stað á undanförnum misserum. Hoyvíkursamningurinn er mikilvægur sem og endurskoðun hans. Er að mínu mati afar brýnt að laga þá annmarka sem Færeyingar hafa bent á og hef ég fulla trú á að sú vinna sem sett hefur verið af stað innan utanríkisráðuneytisins muni leiða það af sér. Ég verð samt að segja að ég tel að við ættum að leggja enn frekari áherslu á samstarf á milli Íslands, Færeyja og Grænlands. Hagsmunir okkar fara svo sannarlega saman á svo mörgum sviðum, sérstaklega vegna þess að mikilvægi norðurslóða er alltaf að aukast.

Fjallað er um Nígeríu í skýrslunni, enda hefur útflutningur á skreið frá Íslandi verið umtalsverður í gegnum tíðina. Beint er sjónum að því erfiða efnahagsástandi og ýmsum aðgerðum stjórnvalda þar í landi sem hafa slæmar afleiðingar fyrir viðskipti landanna. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um framvindu mála í Nígeríu, þ.e. hvort gengið hafi eftir að stofna formlegan samráðsvettvang eins og til stóð að gera.

Eins og þingheimi er kunnugt styðja íslensk stjórnvöld markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Framlag til þróunarsamvinnu var hæst árið 2008, þá var það í kringum 0,36%, en það var skorið verulega niður og fór lægst niður í 0,2% árið 2011. Fram kemur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að framlög til þróunarsamvinnu sem hlutfall af vergum þjóðartekjum árið 2016 hafi verið 0,29%. Hins vegar er stefnt að því samkvæmt ríkisáætlun að hlutfallið verði 0,25% árið 2017. Það er ákveðið misræmi þarna á milli og væri ég þakklát hæstv. utanríkisráðherra ef hann gæti aðeins farið yfir það af hverju þetta misræmi er og hver hans skoðun sé á því hvernig við eigum að kynna þessar tölur, því að ég veit að þetta veldur stundum ákveðnum ruglingi í umræðunni.

Ég legg áherslu á að forgangsmál ríkisstjórnarinnar verði að tryggja hagstæðan efnahagssamning við Bretland og halda áfram þeirri vinnu sem lagt var upp með í tíð síðustu ríkisstjórnar. Miklar breytingar eru fram undan í Evrópu vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og sjaldan hefur verið mikilvægara að treysta böndin við samstarfsþjóðir innan EES, EFTA og ESB.

Að sama skapi legg ég mikla áherslu á mikilvægi norðurslóða. Miklar breytingar eru fram undan á þessum slóðum vegna loftslagsbreytinga og einnig þarf að huga að öryggis- og varnarmálum á þessum vettvangi. Umferð hefur verið að aukast á þessu svæði og það skiptir hagsmuni Íslands gríðarlegu máli að þróun á þessum slóðum verði með hagfelldum hætti.

Ég nefndi í byrjun að íslensk utanríkisstefna stæði á ákveðnum tímamótum vegna þeirrar þróunar sem er að eiga sér stað í Evrópu. Ég er þeirrar skoðunar að í þessu felist tækifæri á að mynda og treysta enn frekar í sessi bandalög við þær þjóðir sem hafa álíka nálgun og Ísland í málefnum Evrópu, þ.e. þau ríki sem vilja alþjóðlegt viðskiptafrelsi og mikla alþjóðasamvinnu án þess þó að vera aðilar að Evrópusambandinu.