146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:44]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra góð svör. Mig langar í framhaldinu að ræða aðeins frekar málefni er tengjast Brexit og spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í afstöðu Norðmanna. Hvernig er staðan varðandi Norðmenn þessa dagana? Mér fannst í minni tíð sem utanríkisráðherra stundum svolítið erfitt að lesa nákvæmlega í hvaða átt þeir stefndu. Getur hæstv. utanríkisráðherra upplýst hvort þeir hafi áhuga á að halda áfram á þeirri vegferð innan EFTA-samstarfsins eða telur hann líklegt að þeir séu þessi misserin að reyna að ná tvíhliða samningi við Evrópusambandið. Hvaða áhrif getur það þá haft á stöðu okkar?

Varðandi framlögin til þróunarsamvinnu er mjög mikilvægt að allar þessar tölur séu settar fram á skýran hátt. En ég verð að segja að vegna þeirrar stöðu sem íslenskt hagkerfi hefur verið í á undanförnum misserum hefði ég viljað sjá aðeins meiri hækkun sem hlutfall af vergum þjóðartekjum. Ég tel að við eigum að stefna að því. Þess vegna eru það ákveðin vonbrigði að hlutfallið skyldi ekki hækka meira. Jafnvel þótt framlag til þróunarsamvinnu sé að aukast umtalsvert í krónum talið tel ég að við ættum að hafa aðeins meiri stígandi þegar við tökum tillit til þróunar þar sem landsframleiðslan hefur verið að aukast talsvert mikið, þá mættum við sjá aðeins meiri hækkun á prósentutölu.