146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi framlög til þróunaraðstoðar hefur sá sem hér stendur talað um að nýta fjármunina eins vel og hugsanlegt er, og mun ekki hætta því. Sá sem hér stendur ákveður ekki sjálfur framlögin til utanríkismála. Ég get nýtt allt það sem — og þá sérstaklega í þróunarmálin. Ég er sammála því að við eigum að koma okkur saman um einhverja áætlun sem við getum þá staðið við, bæði hlutfallslega og í upphæðum. Það þýðir hins vegar að við þurfum að sækja þá fjármuni einhvers staðar annars staðar. Það er kannski erfiði þátturinn í þessu. Ég held að það sé nú almennt þannig að þeir sem talað hafa í umræðunni vilja að við gerum enn betur á því sviði. Það hlýtur að vera markmið okkar. Hins vegar er það þannig í fleiri málaflokkum, eins og menn þekkja. En við verðum auðvitað að standa okkur á þessu sviði.

Varðandi Norðmenn einkennist afstaða þeirra nokkuð af því að það eru kosningar í haust. Þeir stíga varlega til jarðar. Þeir eru hins vegar algerlega meðvitaðir um málið. Sviss að vísu er djarfara í þessum efnum, er í annarri stöðu. Þeir tala um EFTA-ríkin og þar af leiðandi Liechtenstein. Þeir eru meðvitaðir um að þeir ætla ekki að missa aðgang að breska markaðnum. Þeir hafa átt samskipti við breska ráðamenn, en tilfinning mín er sú að ekkert muni gerast sem snýr að Noregi fyrr en eftir næstu þingkosningar. Hvernig þær fara veit nú enginn, en eitt er víst að það verður mjög erfitt fyrir norska stjórnmálamenn að vera ekki með aðgang að breska markaðnum. Þetta er þeirra mikilvægasti markaður eins og hjá okkur og þeir eru með mjög svipaða hagsmuni.

Hvernig mál þróast hins vegar er ég ekki meðvitaður um. Allir halda öllu opnu. Ég byrjaði á að tala við Norðmenn. Við stöndum þétt saman í þessum málum eins og öðrum (Forseti hringir.) enda höfum við algerlega sömu hagsmuna að gæta. En ég get ekki spáð nákvæmlega fyrir um útfærsluna núna. Það kemur í ljós seinna.