146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:48]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég held að það sé mjög brýnt að EFTA-ríkin vinni áfram mjög náið saman á þessum vettvangi. Mig minnir að við höfum sett af stað greiningu á hagsmunum EFTA-ríkjanna á þessum vettvangi er varðar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, gott ef það var ekki að tillögu hæstv. utanríkisráðherra. Mér þætti mjög fróðlegt að sjá hvað kom úr þeirri greiningu. Það er mjög fróðlegt að sjá líka hvernig hagsmunir þessara ríkja liggja saman og hvar þeir liggja ekki saman. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort búið sé að ljúka þessari greiningu. Ef búið er að ljúka henni er hægt að nálgast hana með einhverjum hætti? Það er það fyrsta.

Í öðru lagi langar mig að spyrja út í þessa þriðju sviðsmynd sem ég nefndi, þ.e. að gerður verði útgöngusamningur milli Breta og Evrópusambandsins, eins og stefnt er að: Hvernig aðkomu hafa EES-ríkin? Hvernig geta þau náð að fylgjast með og hafa mögulega áhrif á aðkomu sína að því? Ef þeim tekst að gera þennan útgöngusamning, hvaða tímaramma sér hæstv. utanríkisráðherra á því hvenær Ísland gæti mögulega komið að þessu eða hin EES-ríkin?