146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Þar er af ýmsu að taka en ræðutíminn er takmarkaður svo að það verður að stikla á stóru.

Mig langar að byrja mál mitt á að nefna aðeins Bretland og Brexit, sem talsvert mikið hefur verið talað um. Bretar eru auðvitað stórt viðskiptaland okkar. Þess vegna skipta þessi mál okkur miklu. Þess vegna er mikilvægt að þinginu og hv. utanríkismálanefnd sem og almenningi sé haldið upplýstum um gang mála. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að halda þessu góða samtali áfram því að það er okkur nauðsynlegt.

Fram hefur komið, í tengslum við vinnu í kringum fjármálaáætlun, að setja eigi eitt stöðugildi í það í London að fylgjast með þessum málum. Það er fínt að mínu viti, en sú staða er hins vegar fjármögnuð innan þeirra fjárheimilda sem ráðuneytið hefur. Þó svo að þetta sé mikilvægt mál vaknar sú spurning af hverju þurfi þá að klípa fjármagnið; það dregur alls ekki úr mikilvægi verkefnisins. Það væri gott ef ráðherra gæti aðeins komið inn á þetta á eftir .

Mig langar að tæpa á EES-málunum og taka undir það með hæstv. ráðherra að mikilvægt er að hafa áhrif á mótun löggjafar á fyrri stigum og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri. Ég er sammála því að þar verður þessi EES-gagnagrunnur mjög mikilvægur. Ég tel mjög mikilvægt að við þingmenn höfum aðgang að þessum gagnagrunni, en hann verði ekki einungis á vettvangi ráðuneytisins. Þá aftur spyr maður: Er nægjanlegt fjármagn í þessu? Mun sá starfsmaður sem fer að sinna Bretlandi hverfa úr þessum málum? Mig langar að bæta því við að ég myndi vilja sjá meiri pólitíska umræðu hér á Alþingi, ekki bara yfirborðsumræðu um það hversu gott eða slæmt sé að ganga í Evrópusambandið heldur umræðu um pólitíkina sem líka fer fram á vettvangi EES þar sem við getum haft áhrif, til að mynda umræðu um hvítbækurnar sem koma út. Ég held að það væri íslenskri umræðu um utanríkismál mjög til bóta að auka þá umræðu. Það væri líka í takti við skýrslu sem hæstv. ráðherra vitnaði í fyrr í umræðunni, frá árinu 2007.

Nú langar mig að venda kvæði mínu í kross. Ég hef tæpt á sviðum þar sem ég hef verið frekar sammála hæstv. ráðherra og áherslum hans. Nú langar mig að ræða öryggis- og varnarmálin. Þó að við séum öll sammála um að öryggis- og varnarmál skipti land og þjóð og heiminn allan gríðarlega miklu máli nálgumst við þennan málaflokk á mjög ólíkan hátt og leggjum áherslu á mjög ólík atriði. Á bls. 50 í skýrslunni er talað um að þjóðaröryggisstefnan taki jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis. Talað er um nýja tækni og það eru alls konar áskoranir sem ríki heims standa frammi fyrir. Í þjóðaröryggisstefnunni voru nokkuð margir ólíkir málaflokkar listaðir upp sem allir hafa jafnt vægi. Þar er til að mynda, eins og hér er tæpt á, talað um hryðjuverk, netógnir, umhverfis- og öryggismál á norðurslóðum og náttúruhamfarir. Ég hefði viljað sjá í þessum kafla, undir liðnum öryggis- og varnarmál, tekið utan um þessi mál með breiðari hætti en hér er gert. Hér er einungis tæpt á þessum atriðum en fókusinn í meginmáli textans sem á eftir kemur er á þröngt skilgreindu sviði öryggis- og varnarmála, af hernaðarlegum toga. Það finnst mér galli. Ekki getum við bara tekist á um hvort þetta sé rétt nálgun eða ekki heldur finnst mér að ef við látum það liggja á milli hluta, reynum ekki að ná þessari breiðu nálgun, gefi það þessu of lítið vægi. Að því sögðu vil ég líka segja að því miður les ég út úr þessari skýrslu, sem og úr ríkisfjármálaáætluninni, aukin hernaðarumsvif á Íslandi. Það sást með yfirlýsingunni sem var undirrituð af Íslands hálfu og Bandaríkjanna fyrir ári. En líka í því að það á að auka við það sem kallað er gistiríkjastuðningur á öryggissvæðinu í Keflavík sem að mínu mati er ekkert annað en fallegt orðalag yfir það sem er niðurgreiðsla á æfingarflugi herþotna NATO-ríkjanna á Íslandi.

Sýnin á heiminn endurspeglast líka í þessum texta. Líkt og ég kom inn á í andsvari við ræðu hæstv. ráðherra við upphaf umræðunnar er í þessari skýrslu talað um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, sérstaklega í Sýrlandi; að það valdi verulegum áhyggjum. Já, ég tek undir það. En talað er um að öryggisáskorunum til suðurs eigi að mæta með bættu eftirliti, samstarfi við Evrópusambandið og stuðningi við umbætur í öryggis- og varnarmálum. Ég velti því fyrir mér hvað þessi texti þýði. Mér finnst, eins og ég kom inn á áðan, og hef nú aðeins rýmri tími til að ræða, að það sé eins og það sé ekki stríðsástandið sem sé öryggisógnin heldur flóttamennirnir sem eru afurðin af stríðsástandinu. Það finnst mér rosalega slæmt, ef hægt er að skilja þennan texta með þeim hætti því að fólk sem er að flýja óþolandi ástand er ekki öryggisógn heldur ástandið sem það er að flýja.

Mér finnst líka óþægilegt að lesa hér um áherslur á samstarf Atlantshafsbandalagsins, meðal annars við Flóaríkin. Ég velti því fyrir mér hvaða Flóaríki er verið að vísa til. Er það Katar, sem hefur verið að dæla vopnum til stríðandi aðila í Sýrlandi? Er það Sádi-Arabía sem rekur stríð í Jemen þar sem milljónir svelta og mannlegar hörmungar eiga sér stað? Ég er sammála því sem hér kemur fram, einstök ríki ná ekki ein og sér að stemma stigu við hryðjuverkum, flóttamannastraumi eða útbreiðslu gereyðingarvopna í alþjóðlegri glæpastarfsemi. Eða þeim öryggisógnum sem felast í fátækt og umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum. Því miður eru það hins vegar viðbrögðin við þessum ógnum. Ef þau eiga að byggjast á aukinni áherslu á hernaðarlega þætti, eins og ég tel mig geta lesið út úr þessari skýrslu, erum við í verulegum vanda á sama tíma og við heykjumst á að standa við okkar eigin markmið, sem þó eru margítrekuð í þessari skýrslu, um framlög okkar til þróunarsamvinnu.

Því miður er ræðutími minn búinn. Ég næ ekki að tala um þróunarsamvinnu í þessari ræðu en verð líklega að gera það í síðari ræðu hér á eftir. En það er kominn talsverður efniviður fyrir hæstv. ráðherra að svara mér í andsvari.