146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Öryggis- og varnarmál og þróunarmál tengjast. Það var áhugavert að sjá yfirlýsingar frá mörgum hershöfðingjum, bæði núverandi og fyrrverandi, í Bandaríkjaher þegar hugmyndir voru uppi hjá nýrri ríkisstjórn Trump forseta um að skera niður til þróunarmála, að það var það sem þeir lögðu áherslu á. Hér er rætt um flóttamenn. Flóttamenn fara af stað af illri nauðsyn. Það er alltaf einhverjar ógnir sem valda því. Það er út af stríði, hungursneyð, náttúruhamförum og öðru slíku. Það getur skapast örvænting hjá því fólki sem er á flótta eða í flóttamannabúðum jafnvel í mörg ár eða áratugi. Þetta er vandamál okkar allra. Allt hangir þetta saman.

Hins vegar vilja öll ríki hafa trúverðugar varnir. Þau ríki sem telja sig t.d. vera hlutlaus, nefnum frændur vora Svía og Finna, setja gríðarlega fjármuni í heri. Við viljum ekki fara þangað. Við erum í Atlantshafsbandalaginu með tvíhliða samning við Bandaríkin. En á sama hátt reynum við að láta gott af okkur leiða til þess að efla öryggi í heiminum, m.a. með mannúðar- og þróunaraðstoð. Þetta hangir allt saman þegar kemur að skipulagi þessa mála, það er það sem við erum að skoða í utanríkisráðuneytinu. Þess vegna erum við m.a. að skoða þessa skrifstofu. Hér kom fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir, og benti á að henni fyndist þetta ekki nógu skýrt í ráðuneytinu og spurði hvort komin væri einhver niðurstaða í það. En þetta er eitt af því sem við erum að skoða. Hv. þingmaður hefur fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að varðandi þessa stefnumótun og stöðumat í utanríkismálum í gegnum veru sína í utanríkismálanefnd en gæti líka gert það sem almennur borgari því að það er opið fyrir alla að koma með athugasemdir hvað það varðar.

Þetta hefur hvort tveggja með öryggis- og varnarmál og þróunarmál að gera.