146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Það er svo sannarlega rétt að flóttamannavandinn skapast að mjög stóru leyti vegna hernaðarátaka víðs vegar um heiminn en líka vegna misskiptingar og arðráns. Ég hef áhyggjur af því að viðbrögð ríku þjóðanna, og við teljumst svo sannarlega til þeirra, séu sívaxandi vígvæðing, gegndarlaus sóun í hergögn, til rekstrar herja og hernaðarbandalaga. Það er alltaf talað um það sem öryggis- og varnarmál. Þar er hluti af hinum stóra vanda sem heimurinn allur glímir við. Ég er mjög ósammála hæstv. ráðherra um hvernig nálgast eigi þessi mál. Mér finnst mikilvægt að í þessari umræðu komum við aðeins inn á tal um skrifstofu um öryggis- og varnarmál innan ráðuneytisins. Og aftur velti ég því upp hver þörfin sé og hver séu verkefnin. Verða þessi verkefni af hernaðarlegum toga?

Það er greinilega eitt af því sem við verðum að vinda okkur í að skoða. Eitt af því sem maður veltir fyrir sér er: Er þetta kannski eitt af þeim verkefnum sem ekki koma beinlínis fram í textanum með fjármálaáætluninni en á samt að fara í og taka frá peninga í? Ég veit það ekki. (Utanrrh.: Það væri …) Ég sé það ekki. (Utanrrh.: Ekki ég heldur, því miður.) Það er gott að ráðherrann sér það ekki heldur, en ég hugsa með mér út frá því hvernig umræðan (Forseti hringir.) á þingi byrjaði í morgun, (Forseti hringir.) að það var heldur ekkert rætt um að það ætti að einkavæða framhaldsskóla. Þannig að hvað veit maður svo sem?