146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra utanríkismála fyrir að taka svo mikinn þátt í þessum samræðum í dag og vildi svo sannarlega óska þess að við gætum rætt oftar um einn stærsta hlekkinn sem tengir okkur við önnur lönd, sem lýtur að okkar samstarfi við önnur ríki á ýmsa vegu. Mér hefur sýnst ráðherrann vera ansi samvinnuþýður gagnvart Alþingi og vona að svo verði áfram. Því langar mig að spyrja ráðherrann hver nákvæmlega þessi nýja sýn ráðherrans er á þróunarsamvinnu, hver sé eðlismunurinn, á mannamáli, á þessari nýju sýn. Erum við að fara að sjá miklar stefnubreytingar í þeim málaflokki?

Nú er það svo að við lifum á þannig tímum að það er rosaleg óvissa með allt. Meira að segja kosningarnar í Frakklandi gætu farið á hvorn veginn sem er. Það gæti haft gríðarlega mikil áhrif. Við horfum upp á ofboðslega mikla aukningu á einhverju sem er bara hægt að kalla rasisma og jafnvel hreinan fasisma. Ég hef verið að horfa óhóflega mikið á heimildarmyndir um ástandið í Evrópu. Það setur svo sannarlega að manni töluverðan ugg. Ég veit að ráðuneytið hefur tekið breytt landslag föstum tökum þegar kemur að Bretlandi og veru þeirra í Evrópusambandinu, en mig langar að spyrja hvort einhver lengri tíma áætlun sé um það sem er að gerast í heiminum. Hvort það sé einhver hópur. Mun slíkt falla undir þjóðaröryggisráð? Hverjir eru með puttann á púlsinum til að vera meðvitaðir um allar þær hræringar sem eru í heiminum? Því að ég get sagt ykkur það að hlutirnir eru að gerast rosalega hratt. Alveg sama hvað fólki finnst um aðild Íslands að Evrópusambandinu hlýtur það að vera svo að enginn hér inni vilji að Evrópusambandið liðist í sundur. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hver sé skoðun hans á því, hvort hann telji að Evrópu sé betur borgið í þeirri samvinnu sem á sér stað þar. Og auðvitað hafa komið fram kröfur um að sambandið verði gert skilvirkara og upplifun fólks verði að þetta sé ekki bara svona eitthvert risastórt býflugnabú í Brussel þar sem erfitt er að komast inn ef þú ert ekki rétt tegund af býrókratískri býflugu. Mér finnst þetta svolítið mikilvægt. Ég persónulega myndi alls ekki vilja sjá Evrópusambandið liðast í sundur. Ég held að það myndi kalla fram svo mikinn óstöðugleika þegar mikill óstöðugleiki er svo víða annars staðar. Við sjáum það sem er að gerast hjá Rússum gagnvart Úkraínu og líka öðrum ríkjum. Við sjáum óróleikann sem það skapar hjá mörgum miklum vinaþjóðum okkar sem eiga landamæri og sögu með Rússlandi og þeirra yfirtöku á löndum.

Við sjáum það sem er að gerast í Tyrklandi. Mjög alvarlegt. Við sjáum það sem er að gerast í Bandaríkjunum. Mjög alvarlegt. Þar er það bara þannig að ég hef tekið ákvörðun um að ég mun ekki ferðast til Bandaríkjanna, hvorki sem einstaklingur né þingmaður í opinberum erindum meðan ástandið er þannig á landamærunum að ráðherrar frá t.d. Norðurlöndum hafa lent í að vera teknir og grillaðir fyrir að hafa farið til Íraks fyrir nokkrum árum síðan, tveggja tíma yfirheyrslur. Bandaríkjamenn hafa nú sett lög þess eðlis að ef þú ferð yfir landamærin hafa þeir heimildir til að krefja þig um aðgang að Facebook eða tölvupósti. Mér finnst það mjög alvarlegt, sér í lagi ef maður er opinber persóna.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann hafi rætt eitthvað við fulltrúana í bandaríska sendiráðinu. Við erum náttúrlega ekki komin með sendiherra. Það væri gaman að vita hvort við ættum von á slíkum. Mér skilst að Donald Trump hafi engan sérstakan áhuga á að fylla allar stöður. En er von á sendiherra til Íslands frá Bandaríkjunum eða ekki? Og hvenær þá? Hefur það verið rætt hversu erfitt það er fyrir okkur sem erum í umboði þjóðar að ferðast til Bandaríkjanna í opinberum erindagjörðum út af þeirri hættu á að krafist verði aðgengis að öllum okkar samskiptum við annað fólk, m.a. umbjóðendur okkar sem eru kannski að senda okkur skilaboð í trúnaði?

Síðan höfum við líka séð aðra hluti í Bandaríkjunum sem valda mér áhyggjum. Það eru t.d. mjög miklar árásir á vísindasamfélagið og tiltekna samfélagshópa og fólk frá tilteknum löndum. Ég hef miklar áhyggjur af því. Ég hef líka áhyggjur af þeim slæma samningi sem Evrópusambandið gerði við Tyrkland þegar kemur að flóttafólki. Núna höfum við séð hvernig Tyrkland notar fólk í mjög erfiðri og veikri stöðu sem mannlegan skjöld til að hóta Evrópusambandinu ef Evrópusambandið eða þjóðir þar innan gagnrýna Erdogan.

Ég hef áhyggjur af andvaraleysi íslenskra yfirvalda þegar kemur að öryggi tölvukerfanna okkar. Það er ekki nógu mikið gert þar. Mig langar að heyra hvort einhverjar áætlanir séu þar að lútandi. Ég hyggst, og væntanlega stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, kalla eftir úttekt hjá Ríkisendurskoðun um stöðuna á opinberum tölvukerfum. Það þarf að vera heildræn mynd um hvar ber að forgangsraða til að tryggja öryggi ríkisins.

Mig langar líka að vekja athygli á því að það er svolítið þannig að ef möguleikar væru fyrir flóttafólk, sér í lagi frá ríkjum þar sem er mjög slæmt ástand, eins og í Sýrlandi, ríkjum sem eru að fá kúrfuna yfir sig, ef það væru t.d. sendiráð þar sem gætu tekið á móti umsóknum í staðinn fyrir að fólk leggi líf sitt að veði í stærsta grafreit nútímans, hafinu þarna á milli.

Mig langar líka að spyrja hvernig ráðherrann hafi beitt sér, eða hvort til standi að beita sér eitthvað, út frá þeim fríverslunarsamningi sem við gerðum við Kína. Þar kom mjög skýrt fram í yfirlýsingu sem hægt er að finna á vef ráðuneytisins að við ætluðum að beita okkur fyrir því að mannréttindi séu virt þar í landi.

Ég veit að ég er með fullt af mjög leiðinlegum spurningum. (Utanrrh.: Þær eru nú bara 70.) En ég hef mikla trú á ráðherranum. Hann hefur bein í nefinu, í það minnsta á meðan hann var óbreyttur þingmaður. Ég vona að beinin séu enn sterk og hann muni beita sér á þann veg sem margir Íslendingar hafa væntingar til að við beitum okkur á alþjóðavettvangi. Það er svolítið litið til okkar, ekki bara við sjálf, það eru margir sem líta til okkar, að við séum þau sem tökum af skarið þegar kominn er tími til að gera einhverjar breytingar og við þekkjum okkar litlu skref sem hafa haft mikil áhrif í því sögulega samhengi. Ég vona að hæstv. ráðherra fái tækifæri til að beita sér á þann veg. Það eru svo ótrúlega mörg óvissuatriði. Ég vona bara að ráðherrann verði mjög vakandi fyrir okkar sögulega hlutverki þar að lútandi.

Nú vitum við öll um spennuna gagnvart öllum þeim löndum sem ég hef tínt til. Þau eru þó töluvert fleiri. Núna eru Norður-Kóreumenn að agnúast út í Kínverja, sem er svolítið einstakt. Það gæti verið önnur saga að baki líka sem lýtur að viðskiptasamningum og hversu harðorður Trump var í garð Kínverja í aðdraganda kosninga í Bandaríkjunum. Að verið sé að búa til eitthvert sjónarspil. Það breytir því samt ekki að við lifum á viðsjárverðum tímum og það er mjög mikilvægt að við séum með skýra og tæra stefnu og séum fylgin okkur. Og gleymum því aldrei að þótt einhver utanríkisráðherra sé í ráðuneytinu er það almennt séð hefð að töluvert mikil þverpólitísk sátt ríki um þann málaflokk.