146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hvatningu og hlý orð. Ég ætla að reyna að svara einhverjum af þessum spurningum. Aðeins um nýju sýnina. Mér líst mjög vel á heimsmarkmiðin. Mér finnst þau vera metnaðarfull og skynsamleg, mikið lagt í þau. Það er útgangspunkturinn þegar við komum að þessum málum. Það kemur m.a. fram þar sem menn ræða og gera áætlanir um þau að það verða að vera fleiri en bara opinberir aðilar sem að þessum málum koma. Það er það sem Norðurlandaþjóðirnar eru að gera. Við fáum þessar þjóðir ekki þangað sem við viljum fá þær nema einkaaðilar komi að þessum markmiðum líka. Ég er með þá sýn að vilja virkari þátttöku á Íslandi í þessum málum og þá kemur m.a. atvinnulífið inn í og auðvitað frjálsu félagasamtökin líka, sem er nýtt. En ég leita í smiðju Norðurlandanna þegar kemur að þessum málum.

Varðandi óvissuna. Það er margt til í því sem hv. þingmaður segir. Við vorum með opinn fund, utanríkisþjónustan, með Alþjóðamálastofnun HÍ, og þá kom gamli kennarinn minn, Ólafur Þ. Harðarson, og benti á að það er ekkert rosalega langt síðan kommúnistaflokkar fóru mikinn í Vestur-Evrópu og voru með gríðarlega mikið fylgi. En við komumst nú í gegnum það. (BirgJ: …ekki fasistar.) Ja, ef við förum yfir mestu fjöldamorðingja heimsins eru það nú iðulega kommúnistar eins og Maó og Stalín. Ég ætla ekki að fara yfir grimmdarverk kommúnismans. Það er engin hugmyndafræði sem hefur drepið jafn marga og valdið slíkum hörmungum sem kommúnisminn. Ekki það að þjóðernissósíalisminn er viðbjóður líka.

Síðan kom hv. þingmaður að hlut sem er mjög mikilvægur, þetta lengri tíma mat. Ég verð að fara yfir það á eftir í mínu öðru andsvari hvað ég vil gera til þess að við getum gert nákvæmlega það sem ég held að hv. þingmaður hafi verið að vísa til.