146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég held að það liggi alveg fyrir að ég klára svörin ekki núna, ég þarf að fara í þau í lokaræðunni. En það sem ég var að vísa til áðan var að prófessorinn nefndi að við höfum áður séð svona ógnanir sem vestræn ríki hafa getað unnið úr og þær heyra sögunni til. Hér var nefndur rasismi og fasismi og ég vona að þeir muni líka fara á ruslahaug sögunnar fyrr en seinna. Það þarf að berjast fyrir öllum þessum gildum og það má aldrei sofna á verðinum. Ég er bara að segja að við höfum séð þetta áður og sigrast á því. Það var í lýðræðislegum kosningum, ég er ekki að vísa í millistríðsárin og seinni heimsstyrjöldina.

Aðeins um lengri tíma mat sem hv. þingmaður nefndi. Eitt af því sem ég hef lagt upp með í því stöðumati og þeirri stefnumótun sem verið er að vinna í ráðuneytinu er að nýta betur þá þekkingu sem er til staðar á utanríkismálum. Það snýr ekki bara að því sem er innan ráðuneytisins heldur líka öðrum aðilum sem koma að málum og að menn vinni m.a. að því markmiði, sama í hvaða málaflokki er, að meta stöðuna með virkum hætti, líta til lengri tíma í öllum þeim málaflokkum sem hér er verið að ræða. Ég held að við getum skipulagt okkur aðeins betur hvað það varðar. Ég nefni sem dæmi sendiherra sem eru búnir að starfa lengi, eru með gríðarlega mikla þekkingu. Ég vil með skipulegum hætti m.a. tappa af þeim, að þeir geti komið því frá sér sem þeir eru búnir að vinna að og þeirri þekkingu sem þeir hafa, sama með háskólasamfélagið, þannig að þingmenn eða almenningur eða aðrir geti tekið virkari þátt með góðum upplýsingum. Þetta er eitt af því sem liggur undir í stefnumótunarvinnunni í ráðuneytinu núna.

Síðan um ESB. Ég hef áhyggjur af ESB. Mér finnst vera tvennt uppi þar, annars vegar að þjóðríkin átta sig á vandanum, vilja taka á honum en mér finnst það ekki alltaf vera í samræmi við þá aðila eða milli þeirra aðila sem fara með völdin í Brussel. Ef menn geta ekki horfst í augu við vanda ESB held ég að fari illa. Ef menn horfast hins vegar í augu við það og eru einlægir í því, takast á við það, þá verður bara að koma í ljós hvers konar ESB það verður. (Forseti hringir.) En samstarf milli ríkja í Evrópu er auðvitað skynsamlegt. Ég get farið aðeins betur yfir það á eftir ásamt öllum öðrum þáttum sem hv. þingmaður kom með.