146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

(Forseti (JÞÓ): Hv. þingmaður getur verið búinn. Þetta er nefnilega svolítið ruglingslegt fyrir okkur hér í þingsal og þá sem heima sitja. Það er ráðherra sem er að fara í andsvör við þingmenn í þessu tilfelli og hefur forseti mismælt sig einu sinni. Ég ætla þó ekki að gera það í þetta skiptið.)

Forseti. Yfirleitt er þetta öfugt, við þingmenn erum að grilla ráðherrana. En nú hefur maður tækifæri til að eiga orðastað við ráðherrann, ítarlegar en oft áður á þessum eina degi ársins sem við fáum að ræða um utanríkismál, ef það tekst að koma málinu á dagskrá. Ég vil bara koma því á framfæri að það er mjög gagnlegt fyrir alla þá sem hafa áhuga á að kynna sér þennan málaflokk, sem er svolítið alltumlykjandi, að kynna sér skýrsluna. Þar er samantekt á ýmsum atriðum.

Það var eitt sem ég hjó svolítið eftir. Þegar talað er um þróunarsamvinnu og okkar framlög þá skil ég ekki alveg af hverju er sett inn tala sem lýtur að hælisleitendum og flóttamönnum. Það eru í raun önnur ráðuneyti sem greiða fyrir hælisleitendur. Það er hægt að misskilja þetta.

Það er annað sem ég gleymdi að koma að og finnst mjög mikilvægt. Það er mikið talað um að við leggjum mikla áherslu á viðskiptasamninga og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Eitt af því sem skiptir þá væntanlega máli er að hafa sendiráð. Ég var nýverið í Bangladesh á fundi Alþjóðaþingmannasambandsins. Þar var búið að steypa saman þremur sendiráðum frá Norðurlöndunum. Ég saknaði þess að Ísland væri ekki þar, í það minnsta bara í kjallarakompunni eða eitthvað svoleiðis. Mig langar að spyrja hvort það sé eitthvað verið að skoða nánari samvinnu við að reka sendiráðin. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa alla vega einn starfsmann á svæðinu.