146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að hv. þingmaður hefur lesið heima og fær ráðherra hér margar spurningar. (Gripið fram í.) Ég ætla að reyna að fara yfir eins mikið og ég get. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir um uppfærslu ratsjárkerfanna. Við munum aldrei fara að borga 25%. Þetta er núna á upphafsstigum. Við erum að sækja um í Mannvirkjasjóð NATO en það er hins vegar enn á frumstigi.

Um utanríkismálastefnu Bandaríkjanna: Ég hef sótt bæði utanríkisfund NATO og varnarmálafund. Komið hefur í ljós að þetta er mjög hefðbundin stefna eins og við eigum að venjast frá Bandaríkjunum þegar kemur að Atlantshafsbandalaginu. Við eigum ekki von á að það muni breytast.

Um WOW liggur fyrir að þeir hafa mjög mikinn áhuga, og fara ekkert dult með það, að fljúga lengra en þeir hafa gert áður. Ég veit ekki betur en að það sé sami áhugi hjá Icelandair. Við erum að reyna hvað við getum að gera eins mikið af loftferðasamningum og mögulegt er. Keflavík var byggð upp á áratugum með því að vera miðstöð í Atlantshafinu. Nú er mjög auðvelt að fljúga beint yfir Atlantshafið. Ef við ætlum að halda stöðu okkar, sem okkur finnst alveg sjálfsögð, þurfum við að vera með loftferðasamninga lengra en við höfum núna. Það er ekkert leyndarmál að við erum að reyna að ná loftferðasamningum við Rússa eins og margar aðrar þjóðir.

Icelandair-vörumerkið er mjög mikilvægt mál. Fyrirrennari minn, hv. þm. Lilja Alfreðsdóttir, setti það mál af stað. Við munum fylgja því fast eftir og það er ekki aðeins fyrir dómstólum og öðru slíku, þetta er líka þegar kemur að umræðunni í Bretlandi o.s.frv. Þetta er mjög mikilvægt mál.

Það eru nokkrir fleiri þættir hér sem ég verð að fá að taka í næsta andsvari.