146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

(Utanrrh.: Engar erfiðar spurningar núna.) Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna og það tækifæri sem við þingmenn höfum til að taka umræðu um utanríkismál í þessum sal. Auðvitað tökum við umræðu um utanríkismál undir öðrum liðum, í fyrirspurnum og þegar sérstakt tilefni gefst til, þegar þingmál koma hér inn sem hafa snertifleti við utanríkisstefnuna og utanríkismálin. En það fer líka vel á því að einu sinni á ári tökum við breiðari umræðu þar sem rætt er um meginþætti utanríkisstefnunnar. Á hinn bóginn velti ég fyrir mér, og veit að fleiri þingmenn hafa gert það, hvort tilefni væri til þess að taka slíka umræðu oftar og hugsanlega með afmarkaðra umræðuefni hverju sinni. Ég tel að það sé atriði sem við þyrftum á vettvangi þingsins að íhuga hvort tilefni sé til að það verði fundið form á því, hugsanlega með því að utanríkisráðherra flytti skýrslu um afmarkaðri þætti utanríkisstefnunnar og þingmenn hefðu þá svigrúm til að ræða kannski meira á dýptina um einstök efni.

Ég myndi segja að umræðan í dag endurspegli að í meginatriðum er samhljómur um grunnstefin í utanríkisstefnu okkar. Auðvitað eru álitamál sem við þekkjum. Flokkar og þingmenn hafa mismunandi afstöðu til hugsanlegrar aðkomu okkar að Evrópusambandinu. Við vitum að á sviði öryggis- og varnarmála er áherslumunur sem snertir þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarf vestrænna ríkja. Það eru kunnugleg og gömul deilumál, ef svo má segja og þau koma fram í þessari umræðu með einum eða öðrum hætti. En á hinn bóginn erum við ekki að takast á um róttækar breytingar að þessu leyti því að segja má að t.d. þær raddir sem hafa talað fyrir því að við segðum skilið við Atlantshafsbandalagið og varnarsamstarf við Bandaríkin hafa ekki hljómað hátt í sölum þingsins. Má segja að merkilega mikil samstaða hafi verið um að viðhalda því sem einum af hornsteinum okkar utanríkisstefnu. Það hefur endurspeglast í umræðum um þjóðaröryggisstefnu og þau mál, það fyrirkomulag, þjóðaröryggisáætlun og þess háttar sem við kláruðum á síðasta kjörtímabili þar sem gengið er út frá áframhaldandi veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi við Bandaríkin sem meginstefi. Þótt aðrar raddir hafi auðvitað heyrst og talsmenn Vinstri grænna hafi áréttað sín sjónarmið í því hefur þessi þáttur engu að síður ekki valdið verulegum deilum í þinginu á síðari árum.

Álitamál um Evrópusambandið koma upp hér enda hafa flokkar gengið til kosninga með mismunandi afstöðu til hugsanlegrar aðildar okkar að Evrópusambandinu á umliðnum árum. Mér heyrist nú að flestir geri sér grein fyrir því að hver sem afstaða manna er séu líkurnar á því að spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu komi upp á næstu misserum ekki mjög raunhæfar. Þess er að minnast í því sambandi að álitamálin í íslenskum stjórnmálum hafa fremur snúist um það tæknilega atriði um hvort fara ætti í áframhaldandi viðræður frekar en grundvallarspurninguna um aðild Íslands að Evrópusambandinu eða ekki. Eftir síðustu kosningar var ljóst að ekki yrði mynduð ríkisstjórn sem hefði að öllu einsleita stefnu eða samstillta í sambandi við þessi atriði. Öll þau stjórnarmunstur sem voru á borðinu eftir síðustu kosningar gerðu að verkum að nauðsynlegt var að flokkar sem hefðu ólíka stefnu í þessum efnum ynnu saman. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð var komist að samkomulagi um ákveðið orðalag sem hv. þingmenn þekkja sem gerir ráð fyrir að ef fram kemur tillaga um aðildarviðræður við Evrópusambandið komi slík tillaga til afgreiðslu í þinginu í lok eða undir lok kjörtímabils. Flokkarnir sem aðild eiga að ríkisstjórninni virða mismunandi afstöðu hver annars til þeirrar spurningar. Þau mál hafa því verið sett til hliðar um sinn, getum við sagt, enda er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, kannski ekki raunhæft ef við lítum á stöðu mála, bæði pólitíska stöðu innan lands og stöðu mála í Evrópu, að búast við að Ísland sé að fara að ganga í Evrópusambandið á næstunni.

Um aðra þætti sem vikið er að í ágætri skýrslu utanríkisráðherra vildi ég nefna þrennt til áréttingar. Ég held að það sé mikilvægt og eigi að vera tiltölulega góð samstaða um það hér að þær breytingar sem eru að verða með úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu kalli á viðbrögð af Íslands hálfu. Þessi mál eru í talsverðri óvissu, enda má segja að þrátt fyrir að staðfest sé að Bretar séu að ganga úr sambandinu eru viðræður milli Breta og Evrópusambandsins og framtíðarfyrirkomulag þeirra mála enn þá töluvert óljóst. Línur hafa ekki skýrst mikið að því leyti enn þá. Hvað varðar hagsmuni Íslands í því sambandi hlýtur utanríkisþjónustan og hin pólitíska forysta fyrir utanríkismálum á Íslandi að leggja áherslu á að gæta hagsmuna Íslands í samskiptum við Bretland enda er það gríðarlega mikilvægur markaður fyrir okkur og mikilvægt viðskiptaland. Mér sýnist að viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra og embættismanna séu á þann veg að fylgjast vel með þeirri stöðu og passa upp á okkar sjónarmið í því sambandi. Því ber að fagna að það sem heyrst hefur frá Bretum í þeim efnum lofar góðu um framhaldið þó að auðvitað séu mál ekki komin á það stig að neitt sé handfast í þeim efnum. Ég held að af hálfu Breta sé fullur vilji til að viðhalda góðu og traustu sambandi við Ísland. Það er það svo sannarlega af okkar hálfu líka. Ég myndi því segja að fyrirkomulag okkar viðskiptatengsla við Bretland eftir að úrsögn Bretlands tekur gildi sé ekki spurning um vilja, hvorki af okkar hálfu né þeirra, heldur einhvers konar tæknilega útfærslu á því fyrirkomulagi.

Það að gæta hagsmuna okkar og nýta okkur EES-samninginn með sem bestum hætti er viðvarandi viðfangsefni og er gefið nokkurt rými í skýrslunni að fjalla um þau mál. Ég tek undir að það er gríðarlega mikilvægt að við pössum upp á okkar hagsmuni í því sambandi. EES-samningurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur. Við þurfum að standa vörð um hann og nýta okkur kosti hans. Hann er ekki gallalaust fyrirbæri en við þurfum að finna leiðir til að lifa með vandkvæðunum en nýta okkur kostina til hins ýtrasta.

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna alveg í blálok ræðu minnar er að norðurslóðamálin snerta okkur með margvíslegum hætti og snerta mörg svið utanríkisstefnunnar. Þau snerta auðvitað loftslagsmálin, umhverfisvernd og slíka þætti, þau snerta líka varnarmál með sínum hætti, viðskiptamál og fleira. Ég vil (Forseti hringir.) í lok máls míns taka undir að við þurfum að nýta þann tíma sem við erum í formennsku í Norðurskautsráðinu sem best til þess að tryggja okkar stöðu í því sambandi.