146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:53]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Sú góða umræða sem við höfum átt hér í dag um skýrslu utanríkisráðherra sýnir og sannar að vissulega er þörf á meiri og dýpri umræðu um alþjóðamál og utanríkismál hér á Alþingi, ekki síst til að vekja athygli á alþjóðamálunum og hvetja til meiri almennrar umræðu um þau sem víðast í íslensku samfélagi.

Snörp orðaskipti og harðar rökræður á milli stjórnarliða og utanríkisráðherra um Evrópumálin koma alls ekki á óvart, enda endurspegla þau þá gjá sem er á milli flokkanna í þeim efnum og hversu ósamstiga og óbilgjarn Sjálfstæðisflokkurinn getur verið í samskiptum sínum við samstarfsflokka í þeim efnum. Þar þarf ekkert að velkjast í neinum vafa um afstöðu hæstv. utanríkisráðherra.

Í fyrri ræðu minni kom ég inn á þróunarmálin og metnaðarleysi í þeim efnum, þar sem við getum gert mun betur; óskýra fjármögnun einstakra málaflokka í utanríkismálunum, nýja stefnu í öryggis- og varnarmálum eins og hér er verið að boða, en lítt er útskýrt hver er, og svo auðvitað Brexit og sýn ráðherrans á þau mál öll og samband Íslands við Evrópusambandið í tengslum við Brexit en líka fyrir utan Brexit.

Í öllum þessum málum langar mig til að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að eiga í góðu sambandi við þingið og upplýsa þingið sjálfviljugur að sem mestu leyti, sem hann getur, um öll þessi mál og ákvarðanir sem liggja fyrir eða verið er að velta fyrir sér í ráðuneyti hans. Meiri upplýsingar eru af hinu góða og geta dregið úr óþarfaágreiningi.

Mig langar að minnast meira á nokkur mál í seinni ræðu minni en ég gerði í minni fyrri ræðu. Það eru umhverfismálin sem að mínu viti eiga að vera leiðarljós og nokkurs konar þungamiðja í utanríkisstefnu okkar, hvort sem er með því að leggja allan þunga og áherslu á umhverfismálin í undirbúningsvinnu vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráði, sem er algerlega nauðsynlegt í ljósi þeirra gríðarlega hröðu breytinga sem eru að verða á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga, sem ekki aðeins valda ugg um áhrif þeirra á náttúru, menningu og lífshætti fólks á norðurslóðum heldur er líka um gríðarlega hagsmuni okkar að ræða í tengslum við aukna umferð á þessu svæði — vísindarannsóknir sem Íslendingar eiga að mínu viti að leiða og vera í fararbroddi í.

Ég vil líka hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að leggja enn meiri þunga á umhverfismálin í sem víðustu samhengi á nánast öllum sviðum utanríkisstefnunnar og verkefnum utanríkisþjónustunnar og sýna þannig framsýni og ábyrgð í verki og ekki bara standa með þeim alþjóðlegu skuldbindingum í umhverfismálum sem Ísland hefur undirgengist heldur líka vera til alþjóðlegrar fyrirmyndar á sviði umhverfismála. Ég veit og ég trúi því að hann sé sammála mér í þeim efnum.

Hv. þm. Nichole Mosty vakti athygli á því í ræðu sinni áðan að í skýrslu utanríkisráðherra vanti í mannréttindakaflann aðgerðir og sýn hans á það hvernig Ísland geti beitt sér varðandi réttindabaráttu LGBT-fólks á alþjóðavettvangi. Ég tek að sjálfsögðu heils hugar undir það. Af því að ráðherra þolir nánast jafn illa ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar og ég er stolt af þeim góðu verkum sem sú ríkisstjórn kom í verk vil ég benda honum góðfúslega á að í tíð þeirrar ríkisstjórnar var heilmikið gert í þeim efnum að vekja athygli á réttindabaráttu LGBT-fólks sem hæstv. ráðherra getur nýtt sér í sínum störfum.

Varðandi jafnréttismálin og hlut þeirra í utanríkisþjónustunni, sem nú þegar eru góðar og miklar áherslur á, þá get ég upplýst hæstv. utanríkisráðherra um að ég aðhyllist mjög feminíska utanríkisstefnu og er þess handviss að hæstv. utanríkisráðherra deili þeirri sýn með mér að leggja þurfi enn meiri áherslu á jafnréttismálin í íslenskri utanríkisstefnu en við gerum nú þegar. Í jafnréttismálum erum við góð á alþjóðavísu og þetta eru málefni og málaflokkar sem við getum deilt með öðrum þjóðum og stuðlað að í utanríkisstefnu okkar og á alþjóðasviði.

Ég held að þar séu enn þá mikil tækifæri fyrir okkur til þess að beita okkur, vekja meiri athygli á jafnréttismálum en við gerum nú þegar þó svo að við gerum það með myndarlegum hætti sérstaklega á sviði og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að vekja athygli í hvívetna á þessum málum. Rannsóknir hafa sýnt að jafnréttismálin í utanríkismálunum og valdefling kvenna og upplyfting þeirra innan utanríkisþjónustu og á alþjóðavettvangi leiðir yfirleitt af sér friðsamlegri lausnir í utanríkismálum og eykur fjölbreytni og skoðanir þeirra sem sitja við borðið í ákvarðanatöku. Þetta held ég að þurfi ekkert að rekja fyrir hæstv. ráðherra. Ég held hann (Forseti hringir.) viti ósköp vel hvað ég á við. Ég vil hvetja ráðherra til góðra verka og þakka fyrir þá (Forseti hringir.) ágætu umræðu sem við höfum átt í dag um skýrslu hans um utanríkis- og alþjóðamál.