146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[17:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna. Ég þarf kannski ekki að taka undir allar útleggingar hv. þingmanns á umræðunni eða einstakar túlkanir á hlutum, en það er aukaatriði. Það er ágætt og gott að það er samt samhljómur í mjög mörgu, og kannski flestu, þrátt fyrir að við séum svo sannarlega hvort á sínum staðnum í stjórnmálum.

Hv. þingmaður segir að það sé ákveðinn misskilningur að minnst sé á hinsegin fólk í skýrslunni en það er ekki rétt. Það er meira að segja gert strax í byrjun, í innganginum, í niðurlaginu. Ég les þetta fyrir hv. þingmann, þetta er líka annars staðar í skýrslunni. Svo segir, með leyfi forseta:

„Virðing fyrir mannréttindum er ein af grunnstoðum utanríkisstefnunnar og eru íslensk stjórnvöld málsvarar mannréttinda á vettvangi fjölþjóðstofnana og gagnvart einstökum ríkjum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á jafnrétti kynjanna og hefur umtalsverðri vinnu og fé verið varið til jafnréttisbaráttunnar á síðustu árum. Hvert tækifæri hefur verið nýtt til að halda á lofti jafnrétti kynjanna, réttindum hinsegin fólks og réttindum barna.“

Þetta er í innganginum, þetta kemur líka fram í kaflanum. Ég hef farið líka yfir það hvernig ég hef beitt mér á þessum rúmlega 100 dögum. Ég vek athygli á því að ég er eini íslenski utanríkisráðherrann sem hefur ávarpað mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna sem einn vettvang. Þar tók ég sérstaklega upp málefni þessa fólks og hef sömuleiðis gert það með ráðamönnum og mun halda því áfram. Ég lít svo á að þetta sé jákvæð hvatning, en það er hins vegar ekki rétt að þetta sé ekki í skýrslunni. Auðvitað er skýrslan eitt og verkin annað en þetta er í skýrslunni og við höfum framkvæmt og munum halda því áfram.