146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[18:08]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Mig langar að þakka hv þingmanni fyrir spurninguna. Í ræðu minni hér fyrr í dag fagnaði ég því sérstaklega að það skyldi koma fram með eins skýrum hætti og raun ber vitni í skýrslunni hversu samtvinnaðir hagsmunir Íslands og Evrópusambandsins eru. Því er mjög vel lýst og það kemur mjög vel fram. Þótt við hæstv. utanríkisráðherra séum ekki endilega sammála um hvort framtíð Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins eða ekki þá er það stærri hugmyndafræðileg umræða sem við tókum hér í dag og munum sennilega halda áfram að taka, hvort sem það er hér í þingsal eða á göngunum. Ég held að það sé, eins og hv. þingmaður kemur inn á, gott að við gerum það, en við hæstv. ráðherra erum sannarlega algjörlega sammála um að EES-samningurinn er mikilvægasti alþjóðlegi samningurinn sem Ísland hefur gert og á. Við verðum að passa upp á hann og byggja á honum og reyna að gera eins gott úr honum og mögulegt er og bæta aðkomu okkar og hagsmunagæslu á vettvangi Evrópusambandsins og gera alla vinnu í kringum EES-samninginn eins skilvirka og góða og mögulegt er.