146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[18:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem mér finnst hafa verið góð. Ég er sammála öllum þeim sem hafa nefnt að það er, held ég, skynsamlegra að skipta þessu samt sem áður upp. Við þurfum bara að meta það. Mér finnst rétt að hv. utanríkismálanefnd hafi frumkvæði að því að meta það. Ég er bara fyrir mína parta að segja að ég er alveg tilbúinn í það. Ég held að það sé mjög gott.

Mér finnst margt hafa komið fram í umræðunni og það er eðlilegt. Við höfum reynt að stytta skýrsluna, reynt að gera hana skilmerkilegri vegna þess að þetta er löng lesning, en eðlilega fór margt fram hjá hv. þingmönnum. Svo þegar við ræðum þetta þá komast menn að því alla vega hvað þeir eru sammála um að vera ósammála um. Það er allra verst þegar menn ná ekki samstöðu um hvað þeir eru ósammála um, þá verður umræðan oft á mjög sérkennilegum stað. Mér finnst hún hafa þroskast vel hérna í dag. Það kemur mér ekki á óvart að mér finnst við vera miklu meira sammála heldur en ósammála. En svo er auðvitað allt í lagi að vera ósammála. Við erum náttúrlega hvert í sínum flokki. Það ætti ekki koma neinum á óvart að við sem stöndum að stjórnarliðinu erum ekki með sömu stefnuna þegar kemur t.d. að aðild að ESB, það ætti ekki að vera nein frétt. Þannig er það. Við komumst bara að ákveðinni niðurstöðu hvernig við færum með þau mál í stjórnarsáttmálanum eins og alltaf gerist. Ég veit ekki til þess að nokkurn tímann hafi í Íslandssögunni tveir eins flokkar myndað ríkisstjórn, eða þrír ef út í það er farið. Ef svo er þá hefur það farið fullkomlega fram hjá mér.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi félags- og innviðina. Þeir eru mjög mikilvægir. Nei, það stendur ekki til að slaka neitt á þeim. Það er svo margt sem við höfum fram að færa. Þar eru ákveðnir hlutir. Eitt er jarðvarminn og umhverfisvæn orka og sjávarútvegur. Við höfum líka margt fram að færa þegar kemur að heilbrigðismálum, t.d. varðandi ungbarnaeftirlit eða hjúkrun o.s.frv. Það hefur skilað góðum árangri.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór t.d. yfir landgræðsluna. Ég hef áhuga á að skoða aðra þætti sem eru góðir, ég nefni t.d. forvarnamálin sem mér finnst tengjast jafnréttismálunum nokkuð. Þar höfum við náð mjög góðum árangri. Það er gríðarlegur vandi í þróunarríkjunum og mörgum öðrum ríkjum af því að þar er mikil óregla og oftast er það nú tengt mínu kyni. Þetta hangir allt saman.

Ég hef verið, svo það sé alveg upplýst, hvattur til að upplýsa allt sem ég hugsa um, ég held að það sé ekki góð hugmynd. Ég held að hv. þingmenn yrðu fljótt leiðir á því ef þeir fengju að heyra allt sem mér dettur í hug. En (Gripið fram í: Það er ekki gott.) það mátti skilja hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur svo að hún væri að meina það — ég sé bara örvæntinguna í andliti hennar þegar hún áttar sig á því að ég skildi þetta svona. Þetta er þá bara allt saman leiðrétt hérna, enda engum greiði gerður með að ég upplýsi allt það sem ég hugsa um.

Hv. þm. Jóna Sólveig Elínardóttir ræddi ákveðna hluti varðandi Tyrkland. Ég þarf kannski ekki að rekja málið og afstöðu okkar hvað varðar Tyrkland, hún er öllum ljós. Um alla fríverslunarsamninga er sérstök nefnd sem tekur á þessum málum á vegum EFTA. Við lítum auðvitað til þess. Hv. þingmaður spyr mig um NATO. Við skulum tala um hlutina eins og þeir eru. Heimurinn er ekki eins og við viljum hafa hann, hann er eins og hann er. Tyrkland hefur í langan tíma verið mjög skipt. Þú ert annars vegar með þjóðfélag sem viðhefur vestrænt gildi, síðan ertu með allt annað. Það væri svakalegt fyrir hinn vestræna heim ef Tyrkland færi annað, svo það sé bara sagt. Ef Tyrkland yrði eins og sum þau lönd sem þar eru í næsta nágrenni.

Þá er það spurningin fyrir alþjóðasamfélagið: Hvernig er best að hjálpa þeim öflum sem við eigum samleið með og viljum ýta undir? Það er ekki einfalt svar við því. Hér er gagnrýndur t.d. samningur ESB við Tyrkja. Ég held að það hafi ekki verið nein illkvittni af hálfu ESB þegar menn gerðu þann samning. Ég held að það sé ekki málið. Menn eru að reyna að leita leiða og halda Tyrklandi nálægt okkur, en á sama tíma gefa þau skilaboð: Þetta gengur ekki, þið getið ekki gengið fram eins og hefur verið gert. Þá er spurningin eins og við höfum stundum rætt um: Hvaða leiðir eru bestar? Við erum sammála um markmiðin, en þetta er ekki allt algjörlega klippt og skorið.

Rétt að málum hinsegin fólks, þau er hérna í innganginum. Þetta er eitt af því sem við leggjum sérstaka áherslu á.

Varðandi jafningjarýni DAC. Ég er alveg hóflega bjartsýnn á að við fáum ágætisúttekt úr því, en það verður auðvitað kynnt fyrir hv. utanríkismálanefnd og þingheimi þegar það kemur.

Um hvernig við getum þróað okkur áfram. Ég held að ef við færum núna úr því sem við erum upp í 0,7% þá væru það 13 milljarðar á ári. Ég held að það væri svolítið stór biti að taka þótt viljinn sé góður hjá hv. þingmönnum. Ég hef að vísu látið mér detta í hug hvort við getum tekið þetta í tengslum við niðurgreiðslu skulda eða eitthvað slíkt og sett okkur markmið hvað það varðar. Það eru ýmsar leiðir í því. Það hefur alveg heyrst úr öllum flokkum vilji til þess að setja hærra hlutfall og þar af leiðandi hærri upphæðir í þetta, en við þurfum náttúrlega líka að passa okkur þegar kemur niðursveifla, hún kemur, að við séum með einhverja línu í þessu þannig að við tökum ekki hlutfallið líka niður eins og hefur gerst þegar eitthvað hefur bjátað á í efnahagsmálum og auðvitað verða alltaf sveiflur í efnahagsmálum. Síðan snýst það líka um að við gerum þetta sem allra best.

Bara svo það sé sagt af því að menn hafa verið að gagnrýna að það sé til fjármagn hér heima. Það hefur alltaf verið. Við uppfyllum bara skilyrði OECD þegar kemur að því hvernig við gefum þetta upp. Þetta eru ekki heimakokkaðar reglur Íslendinga þegar kemur að framlögum til þróunarmála. Það er bara eitt ákveðið sem er tekið sem þróunarmál og auðvitað fylgjum við þeim reglum. Við búum ekki til okkar eigin. Það segir sig alveg sjálft.

Af því að menn nefndu hérna einkaframtakið, auðvitað er mikið af þessu kannski mest unnið með einkaframtaki, ég þarf ekkert að fara yfir það, það er ekki eins og allt saman sé ríkisrekið sem við gerum í þróunarmálum, það er ekki þannig. Ef við ætlum hins vegar að ná heimsmarkmiðunum, það eru allir sammála um það, þá verðum við að fá atvinnulífið inn, þá verðum við að fá meira fjármagn inn. Við viljum ná heimsmarkmiðunum. Við eigum bara að skoða þá sem gera þetta best og við eigum að skoða Norðurlöndin og læra af því góða sem þau gera og sleppa því að gera mistökin ef við mögulega getum.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir spurði út í hagræðingarmálin. Ávinningur af nýlegum útboðum, ég er ekki búinn að gleyma því sem ég hef talað fyrir frá því ég byrjaði í stjórnmálum, (Gripið fram í: Gott.) mönnuð öryggisgæsla var boðin út, bara svona lítill hlutur sparaði 9,3 milljónir á ári. Gagnatengingar fyrir tiltekið sendiráð, lítið mál, sparaði 5,3 milljónir. Síðan ýmislegt hvað varðaði tölvur, sem er ekki stórt mál, sparaði 16,4 milljónir á ári. Þetta er eitthvað sem skiptir máli. Þetta eru peningar almennings sem við erum að fara með. Margt smátt gerir eitt stórt.

Það er rétt hjá hv. þingmanni þegar kemur að viðskiptum við Holland. Ég er ósáttur við það hvað við höfum litlar upplýsingar þegar kemur að utanríkisviðskiptum okkar, það vantar upp á það. Þegar litið er á tölurnar er þetta stærsta útflutningsland okkar, en helmingurinn af viðskiptum er ál. Það fer náttúrlega ekkert inn í Holland eða lítill hluti af því, hinn þátturinn fer mjög líklega lítið inn í Holland. Þetta snýr að því að tollskýrslurnar eru ekki rétt fylltar út. Við höfum vitað þetta lengi, en því er ekki fylgt eftir að fá réttar upplýsingar.

Ef við ætlum að ná árangri í utanríkisviðskiptum okkar þá þurfum við auðvitað að vita hvar við erum að selja. Eins og staðan er núna sýnist mér að við séum ekki komin á þann stað sem ég vil að við séum. Það eru tiltölulega fá lönd t.d. í ESB sem við erum í viðskiptum við. Það eru aðallega Bretland, Þýskaland, Spánn, Frakkland og hugsanlega Belgía, aðeins Norðurlöndin, þetta eru mikilvægir markaðir, en við erum ekki að selja, miðað við þessar tölur, í önnur lönd sem hafa kannski minni kaupmátt. En mér sýnist nú að ýmsar vörur, eins og fiskurinn, flæði svolítið eftir því hvar er best borgað. Ég veit þetta bara ekki og vil fá að vita þetta því utanríkisviðskiptin eru á minni könnu.

Vísað var hér í myndina varðandi millistéttina. Þetta er að breytast. Hv. þingmaður spyr hvernig við ætlum að gæta hagsmuna okkar. Þetta snýr ekki bara að fríverslunarsamningum, þetta snýr líka að loftferðasamningum. Ferðaþjónustan er náttúrlega gríðarlega mikilvæg atvinnugrein hjá okkur, en bara um leið og flogið er hefur það gríðarleg áhrif. Það víkkar líka sjóndeildarhringinn okkar. Við höfum gott af því að sjá meira en bara allra nánasta umhverfið þótt auðvitað sé gott að heimsækja okkar nánustu vini.

Ég kemst ekki miklu lengra, virðulegi forseti. Ég ætlaði að svara hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, nú lenti ég í vandræðum. Ég sé á henni að hún ætlar að fyrirgefa mér þetta. Við höfum tækifæri aftur til að ræða þessi mál því að ég hefði viljað fara aðeins dýpra í ýmislegt sem hv. þingmaður fór í gegnum, marga áhugaverða hluti. Ég vonast til að við fáum tækifæri fyrr en seinna til að eiga orðaskipti um það því að þetta var allt saman — núna fékk ég hins vegar augnaráð sem mér líst ekkert á, virðulegi forseti, en ég vona að mér verði fyrirgefið.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir góða og málefnalega umræðu og vonast til þess að við tökum hana sem allra fyrst.