146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

norræna ráðherranefndin 2016.

474. mál
[18:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt það sem fram kemur hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og að við séum flest sammála um mikilvægi þess að vinna að verkefni sem þessu. Það er nú kannski það sem hefur einkennt samstarf milli Norðurlandanna. Mér finnst ánægjulegt að sjá þegar maður fer í gegnum þetta starf að menn vinna samkvæmt þessum prinsippum í breyttum heimi. Maður getur aldrei slakað á hvað það varðar. Hv. þingmaður vísar til þess að annars staðar á Norðurlöndunum, og hann þekkir þessa hluti eins og lófann á sér enda búinn að starfa ansi lengi á þessum vettvangi og þekkir vel til vinnubragða og hefur góð tengsl, sé þetta unnið sérstaklega í norrænu þjóðþingunum.

Ég skal viðurkenna að ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það er gert hér á hinu háa Alþingi. Hins vegar er það mín skoðun að þetta sé eitt af því sem við eigum að gefa meiri gaum og starfa með skipulegri hætti, ef við gerum það ekki nú þegar. Fyrst hv. þingmaður spurði sérstaklega um þingið, hvernig það taki á því, og samspil þess við viðkomandi ráðherra og norrænu ráðherranefndina, skal ég viðurkenna að ég er ekki besti maðurinn til að fjalla um það. En mér finnst að við þurfum á öðrum sviðum að skipuleggja okkur betur hér í þinginu. Maður finnur að það er mikill áhugi hjá kollegum okkar, og meiri en ég átti von á, þegar kemur að norrænu samstarfi. Ég held að það sé mjög rökrétt af öllum ástæðum. Ég er nú svolítið spenntur að heyra hvaða hugmyndir hv. þingmaður hefur og til hvers hann vísar þegar hann talar um að þetta verði unnið skipulegar í norrænum þjóðþingum.