146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

norræna ráðherranefndin 2016.

474. mál
[18:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit alla vega til þess að í Danmörku hafa menn skipulagt sérstaka umræðu um þetta og haft utanumhald á því hvernig unnið væri að málinu af hálfu danskra stjórnvalda. Það er mjög oft þannig að það þarf samstarf bæði framkvæmdarvaldsins og jafnvel löggjafarvaldsins ef leysa á úr hindrunum. Ég get svo sem alveg játað upp á mig að hafa ekki gert meira í því, en eitt af því sem menn gerðu var að skrifa forsetum þjóðþinganna og reyna að ræða við þá um hvernig hægt væri að sinna þessum málum betur í þinginu.

Mig langaði til að nefna annað við ráðherra þótt hvorugt sé með beinum hætti á valdi ráðherraráðsins. Og þó. Það snýr kannski meira að Norðurlandaráði sjálfu. Það er annars vegar umsókn eða tillaga Íslands og Finnlands um að íslenska og finnska verði tekin upp sem fullgild vinnumál í norrænu samstarfi. Það mun þurfa stuðning í ráðherraráðinu og fjármuni til þess að gera það að veruleika. Það er í vinnslu. En tregða sem tengist mögulega kostnaði hefur þvælst fyrir mönnum. Það snýr svolítið að því að menn samþykki að auka fjárveitingar til Norðurlandaráðshluta samstarfsins, sem er með tiltölulega mjög litla fjárveitingu samanborið við fjárveitingarnar í heild. Ætli þetta sé ekki þannig að ráðherraráðsmegin fari um 920–930 millj. dkr. en í Norðurlandaráðið sjálft um 32 millj. dkr.

Þetta er annað sem ég held að við þurfum og ég vonast til þess að okkar samstarfsráðherra og forsætisráðherra beiti sér í með okkur í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og hitt er svo umsókn Færeyinga um fullgilda aðild að norræna samstarfinu. Við höfum tekið þann pól í hæðina, fulltrúar Íslandsdeildarinnar, að styðja það eindregið. En þar er sömuleiðis við talsverða íhaldssemi að eiga og tókst naumlega að afstýra að þessu væri (Forseti hringir.) hreinlega hafnað á síðasta fundi forsætisnefndar. Mér finnst og spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sama sinnis í því, að þar eigum við Íslendingar að beita okkur og styðja við bakið á frændum okkar Færeyingum.