146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Vestnorræna ráðið 2016.

324. mál
[18:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að koma aðeins inn á nokkra þætti í skýrslunni sem liggur fyrir þinginu um starfsemi Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins árið 2016. Formaður Íslandsdeildar ráðsins fór ágætlega yfir kjarnann í starfinu. Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa þó nokkuð með Vestnorræna ráðinu og hefur það starf allt verið mjög uppbyggilegt og áhugavert. Frændþjóðir okkar, Grænlendingar og Færeyingar, eru höfðingjar heim að sækja. Þegar þessar þjóðir eiga í samstarfi kemur í ljós hve margt við eigum sameiginlegt, hversu margir sameiginlegir hagsmunir tengja þjóðirnar saman og hversu sterk við erum saman þegar við beitum okkur í ýmsum þjóðþrifamálum, þá sérstaklega í þeim sem snúa að hagsmunum þjóða á norðurslóðum. Norðurslóðir eru orðið það svæði sem mikil ásókn er í varðandi auðlindir sem þar eru og ýmsa hagsmuni sem þar liggja undir. Þess vegna er mjög mikilvægt að vestnorrænu þjóðirnar láti til sín taka og beiti sér á þeim vettvangi og hafi möguleika á að láta rödd sína heyrast.

Eins og hv. formaður kom inn á áðan var samþykkt á aukaársfundi á síðasta ári að leita eftir áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Það liggur ekki enn þá fyrir svar við þeirri beiðni en ákvörðuninni var frestað á fundi Norðurskautsráðsins og er enn í ferli, eins og ég skil það. Ég tel mikilvægt að allir þeir sem hafa eitthvað um það að segja, fulltrúar Norðurlandanna, beiti sér fyrir því að hleypa þessum þremur þjóðum að þarna að svo þær fái áheyrn og hafi tillögurétt. Það er mjög mikilvægt að gæta hagsmuna og réttinda íbúa norðurslóða.

Við höfum líka verið þátttakendur í Hringborði norðurslóða. Ég tel það vera af hinu góða. Þar eru til að mynda fulltrúar frá Kanada, Quebec í Kanada, og Samaráðinu ásamt Grænlendingum, Færeyingum og Íslendingum. Þar hefur verið fundað á síðasta ári oftar en einu sinni sem ég tel mjög af hinu góða.

Í ágúst á síðasta ári var ársfundur í Qaqortoq á Grænlandi. Það liggja fyrir tillögur sem komu frá þeim ársfundi varðandi greiningu á því hvort hægt væri að setja á fót svokallaðan eftirskóla ætlaðan 14–17 ára ungmennum til að skapa betri tengsl milli ungmenna frá vestnorrænu löndunum þremur. Það er hefð fyrir eftirskólum annars staðar á Norðurlöndum en ekki á Íslandi. Við skulum sjá hvað kemur út úr því.

Það kom líka fram tillaga sem var afgreidd um að vinna að sameiginlegum rannsóknum á umfangi plasts í lífríki hafsins í Norður-Atlantshafi. Það er í sjálfu sér mjög stórt og mikilvægt mál. Alvarleiki þess máls er mikill, hversu mikið er um plast sem eyðist ekki upp nema á mjög löngum tíma í lífríki hafsins í Norður-Atlantshafi. Það er mjög mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að plasti sé hent í sjóinn og bregðast við varðandi lífríkið og fiskstofnana og annað sem er í hættu vegna plastsins sem fer í hringrás í lífkeðjunni í gegnum fiskana og önnur sjávardýr. Þetta er hættulegt fyrir þær þjóðir og okkur öll, það getur stofnað þessum auðlindum í hættu ef ekki verður hægt að sporna við því og koma í veg fyrir það.

Það var nefnt hérna að samþykkt hefði verið að hafa kvennaráðstefnu á Íslandi. Ég tel það vera mjög mikilvægt og metnaðarfull hugmynd og nauðsynlegt að hrinda henni í framkvæmd því að oftar en ekki eru það konur sem hafa mikil áhrif á búsetu á norðurslóðum með ákvarðanatöku með fjölskyldur sínar. Ég held að það sé kominn tími til að konur ráði ráðum sínum og skoði hvað megi gera til að styrkja jaðarbyggðir og byggðir á norðurslóðum svo þær eigi framtíð fyrir sér og unga fólkið sjái tækifæri í því að byggja upp á þeim slóðum. Ég held að við eigum að leggja metnað okkar í að standa fyrir slíkri ráðstefnu á Íslandi.

Það var líka mjög ánægjulegt að við héldum þemaráðstefnu í Grindavík í janúar 2016 þar sem lýðræði á norðurslóðum var þemað og möguleikar þingmanna til að hafa áhrif á málefni norðurslóða. Sú ráðstefna tókst mjög vel og var upptakturinn að ársfundinum í Grænlandi.

Næg eru verkefnin fram undan hjá vestnorrænu þjóðunum. Þær eiga að halda áfram að styrkja hver aðra í umræðunni og hafa vægi. Það má ekki vera lýðræðislegur halli á samstarfi þjóða á norðurslóðum, þess vegna er mjög mikilvægt að raddir þeirra þjóða sem búa við nyrstu höf heyrist, því að það er fólkið sem lifir af þeim auðlindum sem eru allt í kringum þau lönd, sérstaklega af hafsvæðinu en bæði til lands og sjávar. Sú samvinna sem hefur verið á ýmsum sviðum við björgunarmál, heilbrigðismál, menntamál og ýmis önnur þjóðþrifamál hefur sýnt að þessar þjóðir geta með samstarfi sínu komið ýmsu í framkvæmd þótt það hafi líka oft verið veruleikinn að ýmsar góðar tillögur daga uppi þegar þær koma inn til framkvæmdarvaldsins og komast ekki í framkvæmd. En það er líka okkar hv. þingmanna sem sitjum í deildum hvers lands fyrir sig að fylgja því eftir í viðkomandi þjóðþingi að tillögur Vestnorræna ráðsins nái fram að ganga í verki, fylgja því eftir gagnvart framkvæmdavaldi okkar.

Ég held að það sé mjög jákvæður vilji alls staðar til að efla þetta samstarf til hagsbóta fyrir öll löndin. Íslendingar hafa verið í fararbroddi í því samstarfi, en við erum samt jafningjar í samstarfinu og hver og ein þjóð getur lagt gott til málanna til þess að festa það í sessi.